Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
banner
   mið 25. september 2024 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pep ætlar að nota varaliðið: Spara orku fyrir aðrar keppnir
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, svaraði spurningum eftir 2-1 sigur gegn Watford í enska deildabikarnum í gærkvöldi.

Þar viðurkenndi hann að varalið Man City mun líka spila næstu leiki í þessari keppni vegna alltof mikils leikjaálags frá öðrum stöðum eftir fjölgun leikja í Meistaradeild Evrópu.

Pep segist ekki vera að hugsa um að verða sigursælasti þjálfari í sögu deildabikarsins, þar sem hann er jafn Sir Alex Ferguson og Brian Clough með fjóra titla.

„Ég ætla að tilkynna það núna að í næstu umferð mun ég nota varaliðið. Aðalliðið ætlar ekki að eyða orku í þessa keppni, það er bókað mál. Þetta er ekki hægt þegar það líða stundum rétt rúmir tveir sólarhringar á milli leikja," sagði Guardiola, sem var með Jack Grealish, Jeremy Doku og Phil Foden í byrjunarliðinu í kvöld ásamt Kyle Walker og John Stones.

„Við förum alltaf í hvern einasta leik til að sigra en ég get ekki verið að taka áhættu með heilsu leikmanna minna í þessari keppni. Við spiluðum keppnisleik 50 klukkutímum fyrir upphafsflautið í kvöld. Við verðum að setja ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu í forgang.

„Við myndum eiga í vandræðum með að ráða við þetta leikjaálag þó það væri ekki til neinn deildabikar. Þetta er alltof mikið."


Englandsmeistarar Man City hafa farið vel af stað á nýju tímabili en fengu afar slæmar fréttir á dögunum þegar spænski miðjumaðurinn Rodri varð fyrir alvarlegum meiðslum í jafntefli gegn Arsenal. Rodri, sem er af mörgum talinn besti miðjumaður fótboltaheimsins í dag, missir af næstu mánuðum vegna meiðslanna.

„Þessi leikur kom sér vel núna útaf því að þetta er ennþá byrjunin á tímabilinu og það eru nokkrir leikmenn sem þurfa að safna fleiri mínútum til að koma sér í betra stand. Næst verður það varaliðið sem mætir til leiks."

16-liða úrslit deildabikarsins fara fram í lok október.
Athugasemdir
banner
banner
banner