Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
banner
   mið 25. september 2024 18:07
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Tíu HK-ingar jöfnuðu á Akureyri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 3 - 3 HK
1-0 Dagur Ingi Valsson ('22)
1-1 Dagur Örn Fjeldsted ('30)
1-2 Arnþór Ari Atlason ('43)
2-2 Mikael Breki Þórðarson ('53)
3-2 Ásgeir Sigurgeirsson ('69)
3-3 Atli Arnarson ('91)
Rautt spjald: Atli Hrafn Andrason, HK ('45)

Lestu um leikinn: KA 3 -  3 HK

KA og HK áttust við í eina leik dagsins í neðri hluta Bestu deildar karla og úr varð mikil skemmtun. HK er í harðri fallbaráttu og þurfti helst sigur á erfiðum útivelli gegn nýkrýndum bikarmeisturum.

Leikurinn byrjaði rólega en það voru heimamenn sem tóku forystuna á 22. mínútu, þegar Dagur Ingi Valsson fylgdi stangarskoti Daníels Hafsteinssonar eftir með marki.

Það tók gestina úr Kópavogi átta mínútur að jafna og skoraði Dagur Örn Fjeldsted þá eftir frábæra sókn hjá gestunum. Gestirnir tóku völdin á vellinum á þessum tímapunkti og komst Þorsteinn Aron Antonsson nálægt því að taka forystuna fyrir HK áður en Arnþór Ari Atlason setti boltann í netið eftir laglegt samspil við Birni Breka Burknason.

Staðan orðin 1-2 fyrir HK en gestirnir voru ekki lengi í paradís því Atli Hrafn Andrason lét reka sig af velli skömmu síðar, þegar hann fékk seinna gula spjaldið sitt fyrir brot rétt utan vítateigs. Flautað var til hálfleiks og áttu HK-ingar erfitt verk fyrir höndum leikmanni færri.

KA byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og jafnaði eftir átta mínútur. Mikael Breki Þórðarson skoraði þá glæsilegt mark með flottu skoti úr D-boganum. Þetta er fyrsta markið sem hinn 17 ára gamli Mikael Breki skorar í efstu deild.

Bæði lið fengu færi, þar sem tíu HK-ingar gerðu sig hættulega þrátt fyrir að vera manni færri en tókst ekki að skora. Það var þó Ásgeir Sigurgeirsson sem tók forystuna fyrir KA á 69. mínútu leiksins eftir hornspyrnu frá Harley Willard.

Það var lítið að frétta þar til undir lok leiksins þegar tíu HK-ingar tóku að sækja í leit að jöfnunarmarki, sem þeir fundu í uppbótartíma. Ívar Örn Jónsson gaf þá fyrirgjöf sem Atli Arnarson skallaði í netið og staðan orðin 3-3.

Meira var ekki skorað í þessum fjöruga slag og niðurstaðan jafntefli þar sem HK-ingar geta verið stoltir af því að hafa náð sér í þetta stig þrátt fyrir að vera leikmanni færri hálfan leikinn.

KA er níu stigum frá fallsæti eftir þetta jafntefli, með 28 stig eftir 23 umferðir, á meðan HK er tveimur stigum frá fallsæti, með 21 stig.

HK á næst gríðarlega mikilvægan útileik gegn Vestra í fallbaráttunni, á meðan KA heimsækir botnlið Fylkis.
Athugasemdir
banner
banner