Liverpool horfir til Þýskalands, nýir eigendur Everton eru hrifnir af Southgate og Leeds ætlar að stækka heimavöll sinn
banner
   þri 24. september 2024 20:49
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Como sigraði gegn Atalanta í Bergamó
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Atalanta 2 - 3 Como
1-0 Davide Zappacosta ('18 )
1-1 Gabriel Strefezza ('46 )
1-2 Sead Kolasinac ('54 , sjálfsmark)
1-3 Alieu Fadera ('58 )
2-3 Ademola Lookman ('97, víti)

Atalanta og Como áttust við í síðasta leik helgarinnar í ítalska boltanum. Þessi viðureign átti upprunalega að fara fram í gærkvöldi en var frestað um 24 klukkustundir vegna gríðarlega mikillar rigningar í Bergamó.

Búist var við sigri hjá heimamönnum í Atalanta en nýliðarnir í liði Como mættu grimmir til leiks og voru sterkari aðilinn í kvöld. Þeim tókst þó ekki að taka forystuna fyrir leikhlé, heldur gerði vængbakvörðurinn þaulreyndi Davide Zappacosta eina mark fyrri hálfleiksins með góðu skoti eftir hornspyrnu.

Atalanta leiddi því 1-0 í leikhlé en kantmaðurinn knái Gabriel Strefezza jafnaði metin fyrir gestina í upphafi síðari hálfleiks.

Sead Kolasinac, fyrrum varnarmaður Arsenal, varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 54. mínútu, skömmu áður en kantmaðurinn Alieu Fadera tvöfaldaði forystu gestanna.

Como sneri stöðunni algjörlega við með þremur mörkum á tólf mínútna kafla og reyndu heimamenn hvað þeir gátu til að minnka muninn.

Como gerði vel að loka á stjörnurnar í liði Atalanta og tókst heimamönnum ekki að minnka muninn fyrr en seint í uppbótartíma, þegar Ademola Lookman skoraði úr vítaspyrnu.

Meira var þó ekki skorað og niðurstaðan frábær sigur fyrir Como.

Þetta var fyrsti sigur Como, sem leikur undir stjórn Cesc Fábregas, á deildartímabilinu. Liðið er komið með 5 stig eftir 5 umferðir, einu stigi á eftir Atalanta sem vann Evrópudeildina á síðustu leiktíð.

Síðasti heimaleikur Atalanta var í miðri viku gegn Arsenal í Meistaradeild Evrópu. Þeim leik lauk með markalausu jafntefli þar sem gestirnir frá London voru heppnir að fara heim með stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner