„Við erum búnir að bíða eftir þessu. Það verður gaman fyrir strákana að spila úrslitaleik og ég tala nú ekki um á Laugardalsvelli. Vonandi verður þetta góður dagur," sagði Eggert Gunnþór Jónsson, spilandi þjálfari KFA, í viðtali við Fótbolta.net í dag.
Á morgun ráðast úrslitin í Fótbolti.net bikarnum þegar Selfoss og KFA mætast; það er komið að stóru stundinni undir fljóðljósunum á Laugardalsvelli.
Á morgun ráðast úrslitin í Fótbolti.net bikarnum þegar Selfoss og KFA mætast; það er komið að stóru stundinni undir fljóðljósunum á Laugardalsvelli.
„Við erum búnir að spila við þá tvisvar í sumar og í bæði skiptin hefðu leikirnir getað dottið öðru hvoru megin. Við vitum alveg hvernig þeir spila og hvað við erum að fara út í. Það getur allt gerst. Þeir eru heilt yfir sáttari með sumarið sitt en ég held að það telji lítið þegar komið er út á völl á morgun."
Þetta er annað sumarið þar sem þessi keppni fer fram - þar sem liðin í neðri deildum berjast um bikarinn - en í fyrra fór Víðir með sigur af hólmi. Núna verður annað nafn ritað á bikarinn. Eggert segir þetta góða viðbót við sumarið.
„Þetta er snilld, flott fyrir þessi lið. Úrslitaleikurinn í fyrra heppnaðist mjög vel. Það er gaman núna að vera partur af þessu og sjá þetta með fyrstu hendi hversu vel þetta er gert. Megi þetta halda áfram að stækka og .net á bestu þakkir fyrir. Þetta er góð viðbót við neðri deildirnar og þessi leikur á morgun verður frábær upplifun fyrir unga stráka sem eru að koma upp í meistaraflokki hjá okkur."
Sneri aftur heim
Eggert tók við sem aðalþjálfari KFA í ágúst eftir að hafa verið spilandi aðstoðarþjálfari Mikaels Nikulássonar fyrr í sumar. Liðið náði ekki sínum markmiðum í sumar en gæti samt sem áður náð í bikar á morgun.
„Við vorum með stærri markmið en eftir á þarftu að líta til baka og læra af því sem þú getur lært af, og bæta þig. Maður þarf að sjá tækifæri í framtíðinni og ég geri það. Þetta er búið að vera lærdómsríkt fyrir mig sjálfan og fyrir leikmennina," segir Eggert en hann kom aftur heim fyrir tímabilið eftir langan feril erlendis og með FH hér heima.
„Það var rómantísk hugsun sem ég var búinn að vera með í hausnum lengi á meðan ég var erlendis. Ég hafði alltaf ætlað mér að gera það. Ég kann Mikka (Mikael Nikulássyni) bestu þakkir fyrir að hafa sannfært mig um að koma heim (á þessum tímapunkti)."
„Ég hafði ekki verið heima í hátt í 20 ár. Það var gott að koma aftur og kynnast því starfi sem er í gangi, taka þátt í því að byggja það upp og bæta. Framtíðin er björt þarna. Fyrir mig er mjög gott að koma heim og reyna að hjálpa til."
Vill hann stýra liðinu áfram næsta sumar?
„Auðvitað er það samtal opið. Það er vilji fyrir því af beggja hálfu. Það er ekkert niðurneglt en ég held að það sé sameiginlegur vilji," segir Eggert en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Miðasala á leikinn
Athugasemdir