Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
banner
   mið 25. september 2024 11:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Einn af þjálfurum ársins - „Sá hefur smellpassað í þessa skó"
Halldór Árnason.
Halldór Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik fagnar marki í sumar.
Breiðablik fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er á toppi Bestu deildarinnar eftir 2-0 sigur gegn ÍA á dögunum. Víkingar eiga leik til góða og geta komist aftur á toppinn með sigri á FH í kvöld.

Blikar hafa átt virkilega flott sumar en Halldór Árnason er á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari liðsins. Halldór var aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar og tók svo við Blikaliðinu í fyrra.

Halldór sló nýliðamet Heimis Guðjónssonar með því að ná 49 stigum í Bestu deildinni og liðið er núna harðri titilbaráttu.

„Það var talað um það fyrir tímabil að Halldór væri að fara í risastóra skó Óskars Hrafns, en sá hefur smellpassað í þessa skó," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.

„Ég hugsaði þetta eftir leikinn í gær (á mánudag); það má alveg tala um hann sem einn af þjálfurum ársins. Hann missir Gísla Eyjólfs, Anton Loga af miðjunni og Jason Daði fer á miðju tímabili. Þetta er bara virkilega vel gert hjá Dóra. Hann er búinn að breyta um leikstíl og þeir eru stefnumiðaðir til að vinna helvítis leikinn," sagði Valur Gunnarsson.

„Og samt með því að spila flottan bolta," sagði Elvar Geir.

„Menn tala um að Blikarnir séu ekki jafngóðir og áður þegar þeir hafa verið í titilbaráttu en það skiptir ekki máli fyrir Dóra og þá. Ef þeir vinna titilinn, þá er þeim drullusama hvort þeir séu betri en áður," sagði Haraldur Örn Haraldsson í þættinum.

Hægt er að hlusta á Innkastið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Innkastið - Túristar urðu sigurvegarar
Athugasemdir
banner