David Moyes, stjóri West Ham, var óánægður með varnarleikinn í 3-1 tapinu gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
West Ham var marki yfir í hálfleik eftir að Said Benrahma skoraði af vítapunktinum.
Liðið varðist ágætlega í þeim fyrri en það var ekki sama upp á teningnum í síðari hálfleiknum. Arsenal skoraði þrjú á nokkrum mínútum og gerði þannig út um leikinn.
„Arsenal spilaði mjög vel. Við vorum 1-0 í hálfleik og í raun heppnir að vera það. Við vörðumst vel en þegar allt kemur til alls voru þessi mörk sem við fengum á okkur vonbrigði. Það er ekkert neikvætt hægt að segja um Arsenal, þeir spiluðu vel,“ sagði Moyes.
„Við höfum spilað vel í mörgum leikjum og við gerðum það í dag og hefðum kannski getað komist í 2-0. Ég var meira vonsvikinn með hvernig við fengum annað og þriðja markið á okkur. Við fengum tækifæri til að hreinsa frá en nýttum það ekki. Það getur verið erfitt að vinna okkur og við erum seigir en vorum það ekki þegar við þurftum á því að halda í þeim síðari.“
West Ham er í 16. sæti með aðeins 14 stig en er liðið að dragast í fallbaráttu?
„Ég er bjartsýnn. Við erum með góða leikmenn sem geta barist á toppnum. Við þurfum að nýta okkur það til að fá stig og það hafa komið leikir þar sem við áttum að fá meira út úr. Ég var alls ekki hrifinn af því hvernig við vörðumst í síðari hálfleiknum í kvöld.“
Arsenal er með sjö stiga forystu á toppnum. Moyes telur þá líklega í baráttunni en það má þó ekki gleyma Manchester City í umræðunni.
„Við sáum Leicester vinna deildina, þannig það er ekki hægt að segja að þeir geti ekki gert það. Arsenal er með gott lið og góða leikmenn en Manchester City er að bíða þarna úti. Flestir segja að það lið sé skrefi á undan öðrum liðum.“
Moyes býst ekki við því að félagið fari í það að fjárfesta í nýjum leikmönnum í janúarglugganum.
„Ég myndi ekki búast við því. Við eyddum líklega meirihlutanum í leikmannakaup í sumar. Ég býst ekki við að við gerum mikið í þessum glugga nema einhver meiðist alvarlega,“ sagði Moyes í lokin.
Athugasemdir