Howard Webb er nýr yfirdómari í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa starfað í MLS deildinni undanfarin fimm ár. Þar áður var hann meðal virtustu dómara ensku úrvalsdeildarinnar og dæmdi meðal annars úrslitaleikinn á HM 2010.
Webb vill auka dómarafjölda á Englandi og hvetja fólk af mismunandi bakgrunnum til að prófa dómgæslu. Hann vill fjölga verulega kvenkyns dómurum á Englandi og hvetja til þess að fleiri fótboltamenn taki upp dómgæslu.
Webb líður eins og fyrrum atvinnumenn í fótbolta gætu gert góða hluti sem dómarar eftir að þeir leggja fótboltaskóna á hilluna.
„Við þurfum að finna leiðir til að laða fólk að þessari starfsgrein. Það hefur alltaf verið sérstaklega erfitt að sannfæra fyrrverandi atvinnumenn um að gerast dómarar. Ég er viss um að einhver fyrrum leikmaður úr enska deildakerfinu sé tilbúinn til að vera brautryðjandi," sagði Webb.
„Ég býst ekki við að leikmenn sem léku í efstu deild taki að sér dómarastörf þar sem þeir fara í önnur hlutverk að ferli loknum. En aðrir leikmenn úr neðri deildum sem hafa kannski verið að glíma við meiðsli á undanförnum árum - dómarastarf væri tilvalið fyrir þá.
„Það er tækifæri hérna fyrir einhvern til að gerast brautryðjandi. Margir fyrrum leikmenn gætu gert góða hluti sem dómarar."
Það sem dregur úr hvata fyrir marga er hversu langan tíma það tekur að vinna sig upp í dómaraheiminum. Það tók Webb til að mynda rúm 13 ár að verða að úrvalsdeildardómara.
„Það er búið að stytta þetta ferli verulega fyrir þá einstaklinga sem standa sig best. Dómarar þurfa ennþá að fara í gegnum erfitt ferli, það er algjörlega nauðsynlegt, en það getur tekið talsvert styttri tíma en áður."
Pólski dómarinn Szymon Marciniak hóf dómaraferilinn sinn 21 árs gamall samhliða því að spila áhugamannafótbolta. Árið 2009 var Marciniak 28 ára gamall og byrjaður að dæma í efstu deild pólska boltans.
Marciniak hefur fengið mikið lof fyrir frábæra frammistöðu sína á úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Katar þar sem Argentína og Frakkland gerðu 3-3 jafntefli eftir framlengda viðureign.
Webb var lærifaðir Marciniak fyrir mörgum árum síðan og vill hann fá fleiri dómara til starfa með svipaðan bakgrunn í fótbolta.