Pepsi Max-deildin kláraðist um síðustu helgi, eftir hreinlega stórkostlegt tímabil. Stuðið var í hámarki og stjörnur urðu til. Hér eru tíu leikmenn sem slógu rækilega í gegn.
Brynjar Ingi Bjarnason - KA: Fátítt er að leikmenn skjótist með þvílíkum ógnarhraða upp á stjörnuhimininn. Eftir að hafa spilað tíu leiki í deildinni var hann seldur til Ítalíu og er nú búinn að festa sig í sessi með landsliðinu þar sem hann hefur þegar skorað tvö mörk. Magnaður miðvörður.
Sævar Atli Magnússon - Leiknir: Skoraði 10 mörk í 13 leikjum áður en hann var seldur til Lyngby í Danmörku. Var algjör lykilmaður í því að Leiknir kom flestum á óvart og hélt sér uppi á öruggan hátt.
Nikolaj Hansen - Víkingur: Var vissulega þekkt nafn í deildinni en í sumar gjörsamlega sprakk hann út. Fyrir tímabilið hafði hann mest skorað 6 deildarmörk á tímabilinu en núna skoraði sá danski 16 og tók gullskóinn örugglega... og lyfti auðvitað Íslandsmeistarabikarnum.
Jason Daði Svanþórsson - Breiðablik: Lét marga varnarmenn í deildinni líta illa út. Kemur úr akademíunni frægu í Mosfellsbæ, spilaði í Lengjudeildinni í fyrra en kom inn í efstu deild með flugeldasýningu. Atvinnumennskan næst á dagskrá?
Kristall Máni Ingason - Víkingur: - Náði ekki að finna sig í fyrra en aðlögunarferlið í Fossvoginum byrjaði að gefa af fullum krafti í sumar. Var stórhættulegur og sífellt ógnandi hjá Íslandsmeisturunum. Er 19 ára og spennandi að sjá hversu langt hann nær.
Davíð Ingvarsson - Breiðablik: - Steig næsta skref á sínum ferli. Það voru margir sem stigu upp hjá Breiðabliki og fengu mikið hrós á tímabilinu. Kannski fékk vinstri bakvörðurinn Davíð ekki alveg allt það hrós sem hann átti skilið.
Atli Barkarson - Víkingur: Þessi ungi bakvörður lét að sér kveða svo um var talað og eftir því tekið. Hefur tekið góðum framförum og svo verður að minnast á markið á KR-velli. Vá!
Steinþór Már Auðunsson - KA: Stubbur og hans Öskubuskusaga. Hefur spilað í neðri deildunum en kom óvænt inn í mark KA vegna meiðsla og var að margra mati besti markvörður deildarinnar í sumar.
Baldur Logi Guðlaugsson - FH: Á svo sannarlega skilið hrós. Með hann í stærra hlutverki varð FH strax mun betra lið. Ef Hafnfirðingar gætu spólað til baka þá hefði hann verið í lykilhlutverki frá fyrsta leik.
Athugasemdir