Tel gæti farið á Old Trafford - Ferguson orðaður við Chelsea - Man City eltir spænskan miðjumann
banner
   lau 01. febrúar 2025 17:11
Brynjar Ingi Erluson
England: Salah sá um Bournemouth - Everton á flugi undir Moyes
Mo Salah er engum líkur
Mo Salah er engum líkur
Mynd: Getty Images
Bournemouth tapaði fyrsta leik sínum á þessu ári
Bournemouth tapaði fyrsta leik sínum á þessu ári
Mynd: Getty Images
Paul Onuachu skoraði sigurmark Southampton
Paul Onuachu skoraði sigurmark Southampton
Mynd: Getty Images
Beto gerði tvö fyrir Everton
Beto gerði tvö fyrir Everton
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah var hetja Liverpool í dag er hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 útisigri á Bournemouth í 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Bournemouth hefur verið heitasta lið ensku úrvalsdeildarinnar síðustu mánuði og var þetta langt í frá auðveld viðureign fyrir topplið Liverpool.

Mikill kraftur var í liði Bournemouth snemma leiks en eftir að leikmenn Liverpool lærðu betur á leik heimamanna varð þetta aðeins þægilegra fyrir gestina.

Eftir hálftímaleik dró til tíðinda er Lewis Cook steig aftan á Cody Gakpo í teignum. Dómurinn þótti umdeildur við fyrstu sýn en VAR staðfesti dóminn og sagði Cook hafa farið aftan í Hollendinginn sem varð til þess að hann féll um sig.

Mohamed Salah skoraði úr vítaspyrnunni sem var hans 20. mark á tímabilinu.

Átta mínútum síðar lá boltinn í netinu hjá Liverpool. Bournemouth keyrði hratt upp í sókn og boltinn færður út vinstra megin á Antoine Semenyo sem lagði boltann út í teiginn á Milos Kerkez sem kom í utanáhlaupinu. Hann átti sendingu í gegnum teiginn og á David Brooks sem skoraði með föstu skoti í vinstra hornið.

Markið stóð hins vegar ekki þar sem Kerkez var rangstæður í aðdragandanum og gat Liverpool-liðið andað léttar.

Andoni Iraola hefur átt gott samtal með leikmönnum í hálfleik því þeir komu óðir út og sköpuðu sér nokkur úrvalsfæri. Antoine Semenyo átti flott skot sem Alisson varði meistaralega.

Stuðningsmenn Bournemouth voru ekki alls kosta sáttir við Darren England, dómara leiksins. Þá helst mótmæltu þeir því að hann hafi ekki gefið Alexis Mac Allister annað gula og þar með rautt fyrir brot á Brooks og þá vildu þeir fá vítaspyrnu þegar Trent Alexander-Arnold virtist handleika boltann innan teigs.

Stuttu síðar fór Alexander-Arnold meiddur af velli. Áhyggjuefni fyrir Liverpool sem er í baráttu um alla titla á þessu tímabili.

Bournemouth átti að jafna leikinn á 70. mínútu. James Tavernier átti hörkuskot í stöngina og barst síðan boltinn til Justin Kluivert sem klúðraði öðru góðu færi.

Þetta átti eftir að reynast dýrkeypt klúður því fimm mínútum síðar skoraði Salah annað mark sitt og gerði þar með út um leikinn með frábæru skoti hægra megin úr teignum. Curtis Jones átti sendinguna á Salah, sem einfaldlega setti boltann í boga yfir Kepa Arrizabalaga í markinu.

Bournemouth, sem hafði ekki tapað í ellefu leikjum í röð í deildinni, reyndi og reyndi að komast aftur inn í leikinn, en það náði ekki að brjóta vörn Liverpool á bak aftur og lokatölur 2-0.

Risastór sigur fyrir Liverpool sem er nú með 56 stig og níu stiga forystu á Arsenal sem mætir Englandsmeisturum Manchester City á morgun. Bournemouth er á meðan í 7. sæti með 40 stig.

Everton nýtur sín undir Moyes

Everton hefur verið á flugi síðan David Moyes tók við taumnum á Goodison Park.

Liðið vann nýliða Leicester, 4-0, í dag. Portúgalski framherjinn Beto og James Garner komu inn í liðið og nýttu tækifærið til hins ítrasta.

Abdoulaye Doucoure skoraði eftir aðeins tíu sekúndur er hann tók boltann á kassann eftir sendingu frá Jordan Pickford og setti boltann í netið.

Beto bætti við öðru á 6. mínútu eftir sendingu James Tarkowski og þá var Beto aftur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiks eftir undirbúning Garner.

Iliman Ndiaye rak síðasta smiðshöggið á lokamínútum leiksins eftir slakan varnarleik Leicester. Fimmta deildarmark hans, en sá hefur verið magnaður síðan Moyes tók við.

Everton hefur nú unnið þrjá leiki í röð og er nú í 15. sæti með 26 stig. Leicester er tveimur sætum neðar með aðeins 17 stig.

Southampton náði í óvæntan en langþráðan 2-1 sigur á Ipswich í nýliðaslag.

Joe Aribo skoraði á 21. mínútu en Ipswich svaraði með marki Liam Delap tíu mínútum síðar.

Nígeríski sóknarmaðurinn Paul Onuachu var hetja Southampton þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma með því að hirða frákast eftir tilraun Kamaldeen Sulemana.

Þetta var fyrsti sigur Southampton síðan í byrjun nóvember og kærkominn var hann. Liðið er áfram á botninum með 9 stig, sjö stigum frá Ipswich sem er í næst neðsta sæti.

Newcastle United tapaði fyrir Fulham, 2-1, á St. James' Park. Jacob Murphy skoraði mark Newcastle á 37. mínútu en Fulham tókst að snúa við taflinu í þeim síðari.

Raul Jimenez jafnaði þegar hálftími var eftir og gerði Rodrigo Muniz sigurmarkið átta mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Skellur fyrir Newcastle í Meistaradeildarbaráttunni, en liðið er í 5. sæti með 41 stig á meðan Fulham er í 9. sæti með 36 stig.

Bournemouth 0 - 2 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('30 , víti)
0-2 Mohamed Salah ('75 )

Everton 4 - 0 Leicester City
1-0 Abdoulaye Doucoure ('1 )
2-0 Beto ('6 )
3-0 Beto ('45 )
4-0 Iliman Ndiaye ('90 )

Ipswich Town 1 - 2 Southampton
0-1 Joe Aribo ('21 )
1-1 Liam Delap ('31 )
1-2 Paul Onuachu ('87 )

Newcastle 1 - 2 Fulham
1-0 Jacob Murphy ('37 )
1-1 Raul Jimenez ('61 )
1-2 Rodrigo Muniz ('82 )

Athugasemdir
banner
banner