Argentínski miðjumaðurinn Carlos Alcaraz er á leið í læknisskoðun hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton. Sky Sports greinir frá.
Þessi 22 ára gamli leikmaður er á mála hjá Flamengo í Brasilíu en hann er að koma til Everton á láni út tímabilið og verður kaupákvæði inn í samningnum.
Alcaraz þekkir ágætlega til á Englandi. Hann fór til Southampton frá Racing Club sumarið 2023 en spilaði aðeins fyrri hluta tímabilsins og hélt síðan á lán til Juventus.
Miðjumaðurinn spilaði 12 leiki með Juventus en félagið ákvað að nýta ekki kaupákvæði í samningnum og var hann því sendur aftur til Southampton.
Í ágúst gekk hann í raðir Flamengo í Brasilíu fyrir 18 milljónir evra og varð um leið dýrasti leikmaður í sögu félagsins, en hann er nú á förum aðeins sex mánuðum eftir að hafa samið við félagið.
Athugasemdir