Tel gæti farið á Old Trafford - Ferguson orðaður við Chelsea - Man City eltir spænskan miðjumann
   lau 01. febrúar 2025 22:18
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Hákon lagði upp í sigri Lille - Liðið upp í fjórða sæti
Mynd: Getty Images
Hákon Arnar Haraldsson sýndi frábæra frammistöðu þegar Lille lagði St. Etienne af velli í frönsku deildinni í kvöld.

Staðan var 1-1 í hálfleik en bæði lið skoruðu úr vítaspyrnu. Það dró til tíðinda snemma í seinni hálfleik. Hákon var að sleppa í gegn en Dylan Batubinsika, varnarmaður St. Etienne, tók hann niður og fékk rautt spjald að launum.

Lille náði forystunni eftir rúmlega klukkutíma leik og Svíinn Gabriel Gudmundsson bætti þriðja markinu við stuttu síðar úr þröngu færi eftir sendingu frá Hákoni. Osmane Sahraoui innsiglaði 4-1 sigur liðsins. Hákon þurfti því miður að fara af velli vegna meiðsla undir lokin.

Lille er í 4. sæti frönsku deildarinnar með 35 stig eftir 20 umferðir. Liðið er tveimur stigum á eftir Marseille og Monaco og fimm stigum á eftir toppliði PSG. Þá er liðið tveimur stigum á undan Nice sem á leik til góða.

Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Volos sem gerði jafntefli á útivelli gegn Panserraikos í grísku deildinni. Volos er í 11. sæti með 21 stig eftir 21 umferð. Þá sat Kolbeinn Finnsson allan tímann á bekknum þegar Utrecht gerði 3-3 jafntefli gegn Zwolle í hollensku deildinni. Utrecht er í 3. sæti með 42 stig eftir 21 umferð.

Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn þegar Carcovia gerði markalaust jafntefli gegn Rakow í pólsku deildinni. Cracovia er í 5. sæti með 32 stig eftir 19 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner