Asensio á leið til Villa - Tottenham vill annan miðvörð - Bailey orðaður við Man Utd
   sun 02. febrúar 2025 16:02
Brynjar Ingi Erluson
England: Langþráður sigur Tottenham í fyrsta byrjunarliðsleik Hákonar - Man Utd tapaði á Old Trafford
Hákon Rafn horfir á eftir boltanum leka í markið
Hákon Rafn horfir á eftir boltanum leka í markið
Mynd: Getty Images
Jean-Philippe-Mateta skoraði bæði mörk Palace og hér fagnar hann öðru þeirra
Jean-Philippe-Mateta skoraði bæði mörk Palace og hér fagnar hann öðru þeirra
Mynd: EPA
Onana situr eftir á meðan Mateta fagnar
Onana situr eftir á meðan Mateta fagnar
Mynd: EPA
Tottenham Hotspur vann fyrsta leik sinn í einn og hálfan mánuð er liðið lagði Brentford að velli, 2-0, á Community-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Manchester United tapaði á meðan fyrir Crystal Palace á Old Trafford.

Hákon Rafn Valdimarsson var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði Brentford í ensku úrvalsdeildinni og varð um leið fyrsti íslenski markvörðurinn til að gera það.

Landsliðsmaðurinn var í mestu vandræðum með sólargeislann í leiknum. Hann prófaði að setja á sig derhúfu, en var fljótur að rífa hana af sér.

Hákon gerði vel fyrsta hálftímann en lenti í smá vandræðum þegar Tottenham tók forystuna. Heung-Min Son stýrði hornspyrnu inn á teiginn og stóð Vitaly Janelt fyrir Hákoni sem ætlaði sér að handsama boltann.

Boltinn fór af Janelt og í eigið net. Neyðarlegt allt saman, en spurning hvort sólin hafi þarna haft áhrif á Hákon.

Tottenham-menn vildu fá tvær vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum, en uppskeran var engin. Í seinna atvikinu var Richarlison hent í grasið eftir að Kevin Schade fór í hann, en hann virtist hreinlega hafa unnið Brasilíumanninn í öxl í öxl.

Bryan Mbeumo komst næst því að skora fyrir Brentford með hörkuskoti en Richarlison náði að setja hausinn í skotið og bjarga gestunum.

Snemma í síðari hálfleiknum fékk Yoane Wissa dauðafæri til þess að jafna leikinn er Schade skallaði boltann áfram á Wissa sem setti boltann í þverslá.

Tottenham fór í það að verja forystuna þegar leið á hálfleikinn og leyfði Brentford að sækja en það gekk bara lítið hjá heimamönnum. Ekki þeirra dagur.

Á lokamínútunum tókst Tottenham að gera út um leikinn er Pape Matar Sarr var sendur í gegn vinstra megin. Hákon var hikandi af línunni og var heldur seinn þegar hann ákvað síðan að fara út í Sarr sem náði að pota boltanum á milli fóta hjá Hákoni.

Mörkin urðu ekki fleiri og fagnaði Tottenham langþráðum sigri.

Tottenham fer upp í 15. sæti með sigrinum en Brentford er áfram í 11. sæti með 31 stig, fjórum stigum meira en Tottenham.

Man Utd tapaði fyrir Palace á Old Trafford

Manchester United tapaði fyrir Crystal Palace, 2-0, á Old Trafford í dag.

Liðsval Ruben Amorim fyrir leikinn var áhugavert. Hann valdi það að hafa báða framherja sína þá Rasmus Höjlund og Joshua Zirkzee á bekknum.

MUTV sagði fyrir leikinn að Bruno Fernandes myndi spila sem fölsk 'nía', en það var kolrangt. Það var Kobbie Mainoo sem var í því hlutverki.

Leikurinn var einstefna fyrstu mínúturnar. United kaffærði Palace en náði ekki að nýta sér skriðþungann, Mainoo átti tilraun sem hafnaði í stönginni.

Palace vann sig aðeins inn í leikinn og átti Daniel Munoz skalla sem fór rétt framhjá og þá átti Ismaila Sarr dauðafæri til þess að koma Palace yfir en hitti ekki á markið.

Undir lok hálfleiksins gat Jean-Philippe Mateta tekið forystuna fyrir Palace. Jefferson Lerma fór illa með Manuel Ugarte áður en hann kom boltanum inn á Mateta. Hann vippaði boltanum yfir Andre Onana, en framhjá markinu.

United byrjaði síðari hálfleikinn eins og þann fyrri. Bruno Fernandes og Manuel Ugarte áttu báðir fín færi en Dean Henderson var vandanum vaxinn í markinu.

Nokkrum mínútum síðar fékk United blauta tusku i andlitið. Palace fékk aukaspyrnu sem var stýrt inn á teiginn. Maxence Lacroix pakkaði Leny Yoro saman í skallaeinvígi og stýrði boltanum í þverslá en Mateta var réttur maður á réttum stað og setti frákastið í netið.

Vörn Palace náði að halda standa af sér árásir United og var Henderson mjög flottur í markinu. Mateta þakkaði vörninni fyrir vel unnin störf með því að tryggja Palace sigurinn með öðru marki undir lok leiks.

Sarr fann Munoz sem kom í hlaupinu. Harry Maguire var of lengi að bregðast við hlaupi Munoz sem var sloppinn í gegn. Hann gat klárað færið sjálfur en valdi það frekar að renna honum út á Mateta sem var ekki í neinum vandræðum með að skora.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir United var argentínski miðvörðurinn Lisandro Martínez borinn af velli á lokamínútunum og því afar vondur dagur hjá heimamönnum

Palace fer upp í 12. sæti á töflunni og upp fyrir United sem er í 13. sæti en Palace er með 30 stig á meðan United er með 29 stig.

Brentford 0 - 2 Tottenham
0-1 Vitaly Janelt ('29 , sjálfsmark)
0-2 Pape Matar Sarr ('87 )

Manchester Utd 0 - 2 Crystal Palace
0-1 Jean-Philippe Mateta ('64 )
0-2 Jean-Philippe Mateta ('89 )
Athugasemdir
banner
banner