Enski sóknartengiliðurinn Marcus Edwards er að snúa aftur til Englands, sex árum eftir að hafa yfirgefið Tottenham Hotspur, en hann er að ganga í raðir B-deildarliðs Burnley.
Edwards hefur spilað í Portúgal síðustu sex árin. Hann fór fyrst til Vitoria de Guimaraes þar sem hann lék í þrjú ár áður en hann fór til Sporting.
Á síðasta tímabili var hann mikilvægur er Sporting varð deildarmeistari, en ekki alveg tekist að fylgja því eftir á þessu tímabili og aðeins skorað 3 mörk í 10 leikjum sínum.
Hann hefur ekki verið í hópnum hjá Sporting í síðustu leikjum og er það nú ljóst að hann er á förum.
Burnley hefur náð munnlegu samkomulagi við Sporting um að fá þennan 26 ára gamla leikmann á láni út tímabilið og verða skiptin síðan gerð varanleg í sumar fyrir tæpar 10 milljónir punda.
Fabrizio Romano segir að Scott Parker, stjóri Burnley, hafi átt stóran þátt í að sannfæra Edwards um að koma og hefur Romano nú fullyrt skiptin með frasanum fræga: „Here we go!“.
Burnley er í harðri baráttu um að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildina en liðið er í 3. sæti B-deildarinnar með 57 stig, þremur stigum frá toppnum.
Athugasemdir