Argentínski bakvörðurinn Valentin Barco mun spila með franska félaginu Strasbourg út þetta tímabil en hann kemur á láni frá Brighton.
Varnarmaðurinn kom til Brighton frá Boca Juniors fyrir ári síðan og lék sjö leiki með liðinu áður en hann var lánaður til spænska félagsins Sevilla um sumarið.
Ekki náði hann að finna sig á Spáni og spilaði aðeins átta leiki áður en Brighton kallaði hann til baka í þessum mánuði.
Brighton hefur nú sent þennan tvítuga leikmann aftur á lán en hann mun klára tímabilið með Strasbourg í Frakklandi. Samkvæmt heimildum Sky Sports verða skiptin gerð varanleg í sumar.
„Það er mikilvægt fyrir Valentin að spila og þetta mun gefa honum tækifæri til þess að fá leiki. Tími hans hjá Sevilla var fremur svekkjandi, en þetta er nýtt upphaf og annað tækifæri. Við óskum honum góðs gengis síðari hluta tímabilsins,“ sagði Fabian Hürzeler, stjóri Brighton, um skiptin.
Barco á fjölmarga leiki fyrir yngri landslið Argentínu og lék þá sinn fyrsta og eina A-landsleik í mars á síðasta ári.
Athugasemdir