Nott. Forest 7 - 0 Brighton
1-0 Lewis Dunk ('12 , sjálfsmark)
2-0 Morgan Gibbs-White ('25 )
3-0 Chris Wood ('32 )
4-0 Chris Wood ('64 )
5-0 Chris Wood ('70 , víti)
6-0 Neco Williams ('90 )
7-0 Jota Silva ('90 )
1-0 Lewis Dunk ('12 , sjálfsmark)
2-0 Morgan Gibbs-White ('25 )
3-0 Chris Wood ('32 )
4-0 Chris Wood ('64 )
5-0 Chris Wood ('70 , víti)
6-0 Neco Williams ('90 )
7-0 Jota Silva ('90 )
Nottingham Forest er staðráðið í að komast í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil og sýndi það í verki með því að slátra Brighton, 7-0, á City Ground í dag.
Forest hefur verið spútniklið deildarinnar á þessu tímabili. Liðið hefur sýnt ótrúlegan stöðugleika í gegnum allt tímabilið, en fékk óvæntan 5-0 skell gegn Bournemouth í síðustu umferð og tókst heldur betur að bæta upp fyrir það.
Heimamenn komust í forystu á 12. mínútu er Lewis Dunk stýrði sendingu Morgan Gibbs-White í eigið net. Þetta var sjöunda sjálfsmark Dunk í ensku úrvalsdeildinni og hefur hann nú jafnað þá Jamie Carragher, Martin Skrtel og Phil Jagielka.
Ekki er langt í sjálft metið en það á fyrrum varnarmaðurinn Richard Dunn sem setti boltann tíu sinnum í eigið net á ferlinum.
Gibbs-White, sem hefur verið magnaður með Forest á tímabilinu, gerði annað mark Forest á 25. mínútu er hann stangaði hornspyrnu Anthony Elanga í netið á nærstönginni.
Forest var í gír og liðu aðeins sjö mínútur fram að þriðja markinu sem Chris Wood gerði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Elanga frá hægri.
Brighton í miklum vandræðum og tók Fabian Hurzeler til þeirra ráða að gera þrjár skiptingar í hálfleik, en þær báru ekki árangur því Forest gerði tvö mörk til viðbótar.
Wood gerði annað mark sitt á 64. mínútu. Elanga átti laglegan sprett inn hægra megin og náði að spyrna boltanum fyrir markið við endalínuna og til Wood sem þurfti bara að ná snertingu til að koma boltanum í netið. Þriðja stoðsending Elanga í leiknum.
Nokkrum mínútum síðar fullkomnaði Wood þrennu sína eftir skelfilegan klaufagang í Tariq Lamptey. Forest fékk hornspyrnu og í þann mun sem boltanum var sparkað inn í teig ákvað Lamptey að rífa Gibbs-White niður í grasið.
Wood var sem fyrr öruggur í sínum aðgerðum og skoraði úr vítinu og er hann nú kominn með 17 mörk í deildinni, sem gerir hann að þriðja markahæsta leikmanni tímabilsins.
Neco Williams og Jota Silva hjálpuðu til við að niðurlægja Brighton með tveimur mörkum á lokamínútunum. Stórkostlegur sigur Forest og um leið sá stærsti hjá félaginu síðan úrvalsdeildin var sett á laggirnar árið 1992.
Forest er í 3. sæti deildarinnar með 47 stig, sex stigum á undan Manchester City og Newcastle United í Meistaradeildarbaráttunni, en Brighton í 9. sæti með 34 stig.
Athugasemdir