Hákon Rafn Valdimarsson mun byrja sinn fyrsta úrvalsdeildarleik með Brentford er liðið tekur á móti Tottenham klukkan 14:00 í Lundúnum í dag.
Íslenski landsliðsmaðurinn kom til Brentford frá Elfsborg fyrir ári og hefur verið að fá tækifærin í enska deildabikarnum og staðið sig vel.
Hann lék sinn fyrsta deildarleik í lok desember er hann kom inn á fyrir meiddan Mark Flekken. Hákon gerði vel þar og hélt hreinu, en í dag fær hann loks tækifærið til að byrja.
Flekken, sem hafði byrjað 53 deildarleiki í röð fyrir Brentford, er að glíma við meiðsli.
„Mark meiddist í síðu fyrir tveimur dögum þannig hann getur því miður ekki spilað. Ég hef fulla trú á Hákoni, sem gerði vel þegar hann kom inn á gegn Brighton,“ sagði Thomas Frank, stjóri Brentford, á samfélagsmiðlum félagsins.
Þetta verður fimmti leikur Hákonar fyrir Brentford, en hann hefur haldið hreinu í tveimur þeirra og varið eina vítaspyrnu.
Athugasemdir