mán 30. ágúst 2021 12:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
ÍTF vill að framkvæmdastjóri og stjórn axli ábyrgð líka
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍTF, hagsmunasamtök félaga í efstu deildum Íslands, hefur sent frá sér tilkynningu vegna stöðunnar hjá KSÍ.

Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í gær en háværar raddir eru um að það þurfi að hreinsa enn frekar til hjá sambandinu og fleiri að víkja.

Klara fékk sama tölvupóst og Guðni fékk frá föður Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur þar sem tillkynnt var um ofbeldi og kynferðislega áreitni landsliðsmanns. Málið fór ekki fyrir stjórn KSÍ.

Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ, sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hún gerði sér alveg grein fyrir því að margir væru reiðir yfir þeirri ákvörðun stjórnarinnar að stíga ekki frá. Hún hafi sjálf íhugað að segja af sér en stjórnin hafi ákveðið að sitja áfram til að halda KSÍ starfhæfu.

ÍTF fundaði í gær og hefur núna gefið út yfirlýsingu. ÍTF telur að KSÍ hafi gengið alltof skammt í yfirlýsingu sinni; fleiri þurfi að taka ábyrgð í þessu máli.

Yfirlýsing ÍTF
Formannafundur ÍTF um málefni KSÍ var haldinn að kvöldi 29.ágúst 2021.

Á fundinum fór stjórn ÍTF yfir atburði helgarinnar og yfirlýsingu stjórnar KSÍ sem send var út 29. ágúst. Það var samhljóma niðurstaða fundarins að yfirlýsing KSÍ gangi allt of skammt og nauðsynlegt sé að framkvæmdastjóri og stjórn axli sameiginlega ábyrgð.

Með það fyrir augum að endurbyggja traust innan knattspyrnuhreyfingarinnar og almennings gagnvart KSÍ er það mat ÍTF að boða þurfi til auka ársþings samkvæmt lögum KSÍ. Þar sem kosin verður bráðabirgðastjórn sem situr fram að næsta ársþingi sem haldið verður í febrúar 2022. Framkvæmdastjóri KSÍ og hluti stjórnar hefur setið lengi og í ljósi stöðu sinnar bera þau ábyrgð á þeim málum sem til umfjöllunar hafa verið síðustu daga. Knattspyrnuhreyfingin getur ekki samþykkt að núverandi stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri sambandsins muni leiða vinnu við að lagfæra þá hluti sem farið hafa aflaga og skoða frá grunni þá menningu sem við lýði er innan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner