Rashford vill fara til Barcelona - Man Utd gæti reynt að skipta á Rashford og Osimhen - Ferguson og Williams orðaðir við Arsenal
   mið 01. janúar 2025 17:03
Brynjar Ingi Erluson
Willum lagði upp í svekkjandi jafntefli
Willum er kominn með fimm stoðsendingar í deildinni
Willum er kominn með fimm stoðsendingar í deildinni
Mynd: Getty Images
Willum Þór Willumsson lagði upp mark Birmingham í svekkjandi 1-1 jafntefli gegn Stockport County í ensku C-deildinni í dag.

Blikinn var á sínum stað í byrjunarliði Birmingham og lagði upp markið þegar tæpar fimm mínútur voru liðnar af leiknum.

Willum sendi Taylor Gardner-Hickman í gegn en markvörðurinn sá við honum. Birmingham hélt sókninni á lífi og var það Willum sem kom boltanum á Alfie May sem skoraði.

Fimmta stoðsending hans í deildinni á tímabilinu og gat hann ekki beðið um betri byrjun á árinu.

Willum fór af velli þegar tæpur hálftími var til leiksloka en Alfons Sampsted var ekki með í dag. Rúmum tíu mínútum síðar jöfnuðu Stockport-menn.

Benoný Breki Andrésson gekk í raðir Stockport frá KR fyrir áramót en var ekki með í dag.

Birmingham er í öðru sæti með 50 stig en Stockport með 38 stig í 7. sæti.

Jón Daði Böðvarsson kom þá inn af bekknum undir lok leiks er Wrexham tapaði fyrir Barnsley, 2-1. Þetta voru fyrstu mínúturnar sem hann spilar síðan 10. desember er hann kom við sögu í 1-0 sigri Wrexham á Crewe í EFL-bikarnum.

Selfyssingurinn skrifaði undir stuttan samning við Wrexham í október og var talið að sá samningur ætti að renna út um áramótin en þátttaka hans í leiknum í dag útilokar þann möguleika og því líklegast að samningurinn gildir út janúar.

Wrexham er í 3. sæti með 48 stig, fjórum stigum frá toppnum.

Jason Daði Svanþórsson var þá í byrjunarliði Grimsby Town sem tapaði fyrir Accrington Stanley, 3-2. Hann fór af velli þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Grimsby er í 8. sæti ensku D-deildarinnar með 37 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner