Liverpool og Newcastle gætu skipst á framherjum - Bayern undirbýr tilboð í Verbruggen - Man Utd horfir til Sporting
   lau 29. september 2018 20:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Samdi við Val með því skilyrði að þeir myndu græja sálfræðitíma"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar, Eiður Aron og Magnús Már.
Gunnar, Eiður Aron og Magnús Már.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ef ég opna mig aðeins um þetta þá fór ég ekki rosalega vel með peninga þegar ég var úti í atvinnumennsku," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaður Vals, í löngu og góðu spjalli við Innkastið á Fótbolta.net eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í dag.

Magnús Már Einarsson og Gunnar Birgisson ræddu við hann á Hlíðarenda með Íslandsmeistarabikarinn sjálfan.

Eiður var að klára sitt annað tímabil með Val og í bæði skiptin hefur liðið orðið Íslandsmeistari. Hann hefur spilað stórt hlutverk í báðum þessum titlum.

Hann kom heim úr atvinnumennsku í fyrra eftir að hafa spilað í Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi.

Í spjallinu við Magga og Gunna opnaði Eiður sig varðandi spilafíkn sem hafði áhrif á hann á meðan hann var úti í atvinnumennsku.

„Ég var spilafíkill"
„Ég eyddi pening eins og ég veit ekki hvað og svo fór ég að eyða pening sem ég átti ekki einu sinni. Það er kannski einhver ástæða fyrir því að hlutirnir gengu ekki upp hjá mér."

„Ég var spilafíkill, um leið og ég fékk 1000 krónur þá fór hann í spilapóker."

„Ég fer út til Örebro 2011 og fæ fullt af pening þar fyrir að skrifa undir. Peningurinn fer í þetta og það endar með því að enda í skuldum. Ég spilaði bara sjö leiki fyrir Örebro og kom aftur heim til Íslands. Ég kom heim til ÍBV og fór þaðan til Sandnes í Noregi á láni (frá Örebro). Það gekk ágætlega."

„Ég fer aftur til Örebro 2015, spilaði 27 af 30 leikjum í deildinni og fékk samningstilboð til þriggja ára. Ég var kominn í slæm mál á þeim tíma, ég skuldaði fólki pening. Peningurinn sem þeir voru að bjóða mér var ekki að fara að bjarga mér úr því."

„Svo kemur þetta frá Þýskalandi, lið (Holstein Kiel) sem er í mikilli uppbyggingu á þeim tíma, í þýsku 3. deildinni. Það breyttist í rauninni ekkert þá. Fjölskyldan flutti til Íslands í desember 2016, ég ætlaði að reyna að losna en það gekk ekki. Ég var einn í desember fram í maí. Það eina sem ég hugsaði um var póker."

„Ég mætti á æfingar klukkan hálfníu á morgnana og var til tólf eða eitt. Svo var það bara tölvan til þrjú um nóttina. Það gengur náttúrulega ekki. Ég ákvað að þetta væri komið gott og kom til Íslands í fyrra. Ég samdi við Val með því skilyrði að þeir myndu græja fyrir mig sálfræðitíma."

„Það hefur gengið mjög vel, ég hef ekki snert neitt sem tengist fjárhættuspili í eitt og hálft ár eða eitthvað. Frammistaðan á vellinum tengist þessu mjög mikið."

„Þetta var mjög erfiður tími en ég er stoltur að hafa sigrast á þessu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég tala opinberlega um þetta."

Smelltu hér til að hlusta á Innkastið þar sem spjallað var við Eið Aron.
Athugasemdir
banner
banner