Jón Þór Hauksson segir upp hjá Stjörnunni til að taka við kvennalandsliðinu
Fótbolti.net sagði frá því í gærkvöldi að Jón Þór Hauksson aðstoðarþjálfari Stjörnunnar sé að taka við kvennalandsliðinu eftir viðræður við KSÍ að undanförnu en Ásthildur Helgadóttir verður honum til aðstoðar.
Taka Jón Þór Hauksson og Ásthildur við landsliðinu?
Taka Jón Þór Hauksson og Ásthildur við landsliðinu?
Slík gylliboð að félögin eiga lítinn séns
Aðspurður út í þessar fréttir sagðist Magnús Viðar Heimisson formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar aðeins geta staðfest að Jón Þór hafi óskað eftir því að fá að ljúka störfum hjá Stjörnunni en hann hafi í aðdraganda þess verið í viðræðum við KSÍ.
Þetta er annað árið í röð sem Stjarnan missir mann úr þjálfarateyminu til KSÍ því fyrir ári síðan hætti Davíð Snorri Jónasson hjá þeim til að taka við U17 ára landsliðinu.
„Ég fordæmi vinnubrögð KSÍ þegar kemur að ráðningu þjálfara hjá sambandinu," sagði Magnús Viðar við Fótbolta.net í morgun.
„KSÍ hefur ítrekað haft samband við samningsbundna þjálfara og boðið þeim slík gylliboð að félögin eiga lítinn séns," bætti hann við og hélt svo áfram.
„Þetta yfirboð á markaði er knattspyrnunni ekki til framdráttar en það er vissulega til marks um digra sjóði sambandsins um þessar mundir."
Krafa félaganna að KSÍ ræði við þau
Magnús Viðar segir það ekki vera í verkahring þjálfara að biðja um leyfi til að fá að ræða við KSÍ eftir að sambandið hefur sett sig í samband við viðkomandi. „Það hlýtur að vera krafa félaganna að KSÍ ræði við félögin um það að til standi að bjóða þjálfurum þeirra eitt eða annað."
Með þeim starfsháttum sem viðhafðir eru hjá KSÍ um þessar mundir segist Magnús Viðar ekki sjá annað en að sambandið sé að grafa undan því góða starfi sem unnið er hjá félögunum og komi þeim ítrekað í erfiða stöðu enda er þetta langt frá því að vera eina dæmið þar sem sambandið vinnur svona í bakherbergjum við ráðningar á þjálfurum.
„Ég trúi því ekki að félögin þurfi í alvörunni að standa fyrir reglugerðarbreytingum til þess að KSÍ eða starfsfólk þess viðhafi eðlileg samskipti við aðildarfélögin," sagði hann að lokum.
Athugasemdir