banner
   mið 02. nóvember 2022 19:54
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Leipzig áfram eftir sigur á Shakhtar - Real Madrid skoraði fimm
Christopher Nkunku skoraði og lagði upp í sigri Leipzig
Christopher Nkunku skoraði og lagði upp í sigri Leipzig
Mynd: EPA
Federico Valverde var öflugur gegn Celtic
Federico Valverde var öflugur gegn Celtic
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
RB Leipzig tryggði sig áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í kvöld með því að vinna 4-0 stórsigur á Shakhtar Donetsk í F-riðlinum í kvöld. Real Madrid valtaði þá yfir Celtic, 5-1, á Santiago Bernabeu.

Leipzig þurfti að minnsta kosti stig í kvöld til að komast áfram í 16-liða úrslit og liðið gerði gott betur en það.

Christopher Nkunku kom Leipzig í 1-0 á 10. mínútu. Timo Werner átti skot sem markvörður Shakhtar varði út á Nkunku sem átti ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið.

Níu mínútum síðar neyddist Werner til að fara af velli vegna meiðsla og inn kom Emil Forsberg.

Andre Silva tvöfaldaði forystuna snemma í síðari hálfleik áður en Dominik Szoboszlai gerði þriðja markið þegar hálftími var eftir og í þetta sinn eftir stoðsendingu frá Nkunku.

Dani Olmo rak síðasta naglann í kistu Shakhtar tuttugu mínútum fyrir leikslok með góðu skoti sem fór í stöng og inn. Lokatölur 4-0 og Leipzig fer áfram ásamt Real Madrid, sem vann Celtic 5-1 á Santiago Bernabeu.

Luka Modric skoraði úr vítaspyrnu á 6. mínútu eftir að Moritz Jenz handlék knöttinn innan teigs. Real Madrid fékk aðra vítaspyrnu tæpum fimmtán mínútum síðar og í þetta sinn var það Matt O'Riley sem handlék knöttinn og var það Rodrygo sem fór á punktinn í þetta sinn og skoraði hann örugglega.

Dómararnir voru gjafmildir í leiknum því þriðja vítaspyrna leiksins kom eftir rúmlega hálftímaleik. Ferland Mendy braut á sóknarmanni Celtic og fór Josip Juranovic á punktinn en Thibaut Courtois sá við honum. Mikilvæg varsla hjá Courtois.

Marco Asensio skoraði þriðja mark Real Madrid eftir sendingu frá Dani Carvajal í upphafi síðari hálfleiks áður en Vinicius Junior skoraði fjórða markið. Federico Valverde var arkitektinn á bakvið það og skoraði úrúgvæski miðjumaðurinn svo fimmta mark Real Madrid tuttugu mínútum fyrir leikslok. Jota klóraði í bakkann fyrir Celtic þegar sex mínútur voru eftir en lengra komst Celtic ekki og lokatölur 5-1.

Real Madrid er sigurvegari F-riðils með 13 stig en Leipzig í 2. sæti með 12 stig. Shakhtar fer í Evrópudeildina með 6 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Real Madrid 5 - 1 Celtic
1-0 Luka Modric ('6 , víti)
2-0 Rodrygo ('21 , víti)
2-0 Josip Juranovic ('35 , Misnotað víti)
3-0 Marco Asensio ('51 )
4-0 Vinicius Junior ('61 )
5-0 Federico Valverde ('71 )
5-1 Jota ('84 )

Shakhtar D 0 - 4 RB Leipzig
0-1 Christopher Nkunku ('10 )
0-2 Andre Silva ('50 )
0-3 Dominik Szoboszlai ('62 )
0-4 Valeriy Bondar ('68 , sjálfsmark)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner