Chelsea 0 - 1 Manchester City
0-1 Riyad Mahrez ('63 )
Chelsea varð fyrir áfalli fyrir leik liðsins gegn Manchester City í kvöld þegar í ljós kom að Mason Mount gat ekki verið með vegna smávægilegra meiðsla. Vitað var að Reece James gæti heldur ekki verið með vegna meiðsla.
Áföllin héldu áfram að dynja á Chelsea í upphafi leiks en eftir um 20 mínútna leik var Chelsea búið að gera tvær skiptingar þar sem Raheem Sterling og Christian Pulisic þurftu að fara af velli vegna meiðsla.
Varamannabekkur Chelsea var mestmegnis skipaður ungum og oreyndum leikmönnum og Carney Chukwumeka er einn af þeim en hann kom inn á fyrir Pulisic og átti besta færi fyrri hálfleiks en skot hans fór í stöngina.
City náði lítið sem ekkert að skapa sér í fyrri hálfleik en Kyle Walker, Joao Cancelo og Phil Foden voru að spila sínn fyrsta leik efti HM hléið.
Cancelo og Walker fóru af velli í hálfleik og Manuel Akanji og Rico Lewis snéru aftur í liðið. Pep gerði aðra tvöfalda breytingu eftir klukkutíma leik þegar Jack Grealish og Riyad Mahrez komu inn á.
Þeir voru ekki lengi að láta til sín taka en Mahrez skoraði fyrsta mark leiksins aðeins þremur mínútum efitr að hann kom inn á og Grealish lagði markið upp.
Hinn ungi Lewis Hall var nálægt því að jafna metin fyrir Chelsea í uppbótartíma en skot hans fór hátt yfir markið.
1-0 urðu lokatölur og setur því City pressu á Arsenal á toppi deildarinnar. Chelsea er enn í brasi í 10. sæti deildarinnar með einn sigur í síðustu 8 leikjum.