Barcelona lenti í vandræðum með lið CF Intercity í spænsku bikarkeppninni í gærkvöldi. Lið Intercity leikur í þriðju efstu deild Spánar.
Ronald Araujo kom Barcelona yfir strax á fjórðu mínútu og þá héldu kannski margir að þetta yrði auðvelt fyrir Barcelona.
Það var svo sannarlega ekki raunin, staðan var 1-0 í hálfleik en liðin buðu upp á veislu í síðari hálfleik og eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn, 3-3.
Ansu Fati skoraði undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar og það reyndist sigurmarkið. Barcelona fer áfram en ekki var það sannfærandi.
Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA á Akureyri, benti á athyglisverða staðreynd eftir leikinn í gærkvöldi. KA spilaði nefnilega æfingaleik við Intercity fyrir síðasta sumar. Intercity var þá í fjórðu efstu deild en tókst að komast upp úr henni á síðustu leiktíð.
Akureyringar spiluðu hörkuleik við spænska liðið sem endaði með 2-1 sigri Intercity. Rodri skoraði eina mark KA í leiknum í fyrri hálfleik.
Byrjunarlið KA í leiknum: Jajalo; Þorri, Dusan, Ívar, Bryan; Rodri, Andri Fannar, Bjarni, Daníel, Steinþór Freyr, Ásgeir (enginn spilaði allar 90 mínúturnar).
Byrjunarlið Barcelona í gær: Pena, Bellerin, Araujo, Kounde, Alba, Kessie, Busquets, Torre, Dembele, Ferran Torres, Memphis.
Athugasemdir