Það var tilkynnt um það í dag að Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, væri farinn til danska félagsins Lyngby. Fréttir bárust fyrst af því í gærkvöld að Sævar væri á leið þangað.
Sævar er 21 árs gamall framherji og mun einmitt spila í treyju númer 21 hjá Lyngby. Hann er næstmarkahæstur í Pepsi Max-deildinni í sumar, skoraði tíu mörk í þrettán leikjum.
Sævar, sem var fyrirliði Leiknis, hefur skorað 67% (10/15) þeirra marka sem Leiknir hefur skorað í deildinni í sumar. Þetta er því mikið áfall fyrir Leikni sem er fimm stigum frá fallsæti eins og er.
Það var rætt um félagaskipti Sævars í Innkastinu í gærkvöld. „Með þessu flugi fara nánast öll mörk Leiknismanna til kóngsins Kaupmannahafnar," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.
„Þessi sigur HK (4-2 sigur gegn FH) er ekki að gera mikið fyrir Leiknismenn í kvöld, í ljósi frétta af Sævari Atla," sagði Tómas Þór Þórðarson.
„Með fjarveru Sævars, þá þurfa aðrir nauðsynlega að stíga upp," sagði Elvar Geir og tók Tómas undir það. „Aldrei hefur þessi setning átt betur við."
Sóknarmaðurinn Sólon Breki Leifsson, sem er búinn að vera frá nánast allt tímabilið vegna meiðsla, er kominn til baka og eru það jákvæðar fréttir fyrir Leiknismenn. „Hann þarf að vera í standi, Manga þarf að vera góður og allt það. Þetta verður alvöru verkefni án Sævars," sagði Elvar.
Hvað er langt í fyrsta A-landsleik Sævars?
Sævar hefur verið mikilvægur fyrir Leikni síðustu ár og sannaði sig með prompi og prakt á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. Tómas spurði að því í Innkastinu hversu langt væri í fyrsta A-landsleik hans.
Menn voru sammála um að hann myndi spila fyrsta mótsleik sinn innan tveggja ára.
Hægt er að hlusta á allt Innkastið hér að neðan.
Athugasemdir