Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   mán 07. apríl 2025 13:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Skemmtilegast í Svíþjóð og hefði viljað eiga fleiri landsleiki
Lék átján landsleiki á sínum ferli.
Lék átján landsleiki á sínum ferli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varð bikarmeistari með Hammarby í maí 2021.
Varð bikarmeistari með Hammarby í maí 2021.
Mynd: Guðmundur Svansson
'Hann er stór hluti af því sem er í gangi í Víkinni og er búið að vera síðustu ár.'
'Hann er stór hluti af því sem er í gangi í Víkinni og er búið að vera síðustu ár.'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Í síðustu viku var tilkynnt að Jón Guðni Fjóluson væri búinn að leggja skóna á hilluna. Ferill hans var nokkuð farsæll, hann var í rúman áratug í atvinnumennsku, lék 18 A-landsleiki og skoraði eitt mark.

Hann er uppalinn hjá Ægi í Þorlákshöfn og Fram þar sem hann hóf meistaraflokksferillinn. Hann fór út í atvinnumennsku árið 2011 og lék með Beerschot í Belgíu, Sundsvall, Norrköping og Hammarby í Svíþjóð, Krasnodar í Rússlandi og Brann í Noregi. Hann sneri heim til Íslands fyrir tímabilið 2024 og lék með Víkingi á síðasta tímabili.

Hann ræddi við Fótbolta.net og var spurður hverju hann væri stoltastur af á ferlinum.

Bikarmeistari og landsliðsmaður
„Það er gríðarlega stórt að fá að spila fyrir þitt land og eiga allavega þessa leiki fyrir landsliðið, þótt ég hefði viljað eiga fleiri, þá gekk þokkalega á þessum tíma og því er það ekki bara mér að kenna," sagði Jón Guðni en landsliðið var ansi sigursælt á hans landsliðsferli og spiluðu þeir Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson flesta landsleiki á þeim árum.

„Svo urðum við í Hammarby bikarmeistarar í Svíþjóð, það er gríðarlega stórt fyrir klúbb sem hefur ekki unnið mikið af titlum en er risastórt félag. Það var ekkert leiðinlegt að fagna því með stuðningsmönnunum."

Jón Guðni segir að skemmtilegast hafi verið að spila í Svíþjóð. „Stemningin í kringum boltann, Hammarby og marga aðra klúbba, það er mikið af fólki á vellinum í mörgum leikjum. Það er þá alltaf gaman að spila, mikil læti og vitleysa, gríðarlega gaman að taka þátt í því."

Þakklátur Kára
Kári Árnason, fyrrum samherji Jóns Guðna í landsliðinu og nú yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, sagði í tilkynningu Víkings að Jón Guðni væri frábær liðsfélagi og liðsmaður.

„Það er mjög gott að maður skilji eftir sig gott orð. Ég þakka Kára kærlega fyrir það, og ekki bara fyrir það heldur líka að hafa haft trú á mér og taka við mér eftir allt sem ég gekk í gengum í Svíþjóð. Ég hef ekkert nema gott að segja um Kára og hann er stór hluti af því sem er í gangi í Víkinni og er búið að vera síðustu ár."

Hefur verið í þjálfarateymi 2. flokks
Jóni Guðna líst gríðarlega vel á komandi tímabil hjá Víkingi. „Hópurinn er orðinn firnasterkur og breiður. Tímabilið sem er framundan er gríðarlega spennandi."

Hann segist ekki vera búinn að ákveða framhaldið hjá sér. Jón Guðni hefur aðeins fiktað við þjálfun hjá Víkingi og gæti séð sig fara meira út í þjálfunina. Hann er með allar gráðurnar fyrir utan Pro gráðu UEFA.

Spurning um að heyra í Kára hvort það sé eitthvað laust hjá Víkingi?

„Ef að Sölvi heldur áfram svona, þá losnar fljótt um stöðuna þar," sagði Jón Guðni á mjög léttum nótum. Hann hefur verið í kringum 2. flokkinn hjá Víkingi frá því að hann kom heim frá Svíþjóð og mun halda því áfram.
„Þegar maður er farinn að deyfa bæði hnén til að geta æft ertu kominn á slæman stað"
Athugasemdir
banner