Leikmenn Stoke fagna sigrinum. Á myndinni má meðal annars sjá Arnar Gunnlaugsson og Brynjar Björn Gunnarsson.
Í dag var dregið í Fótbolti.net bikarnum, bikarkeppni neðri deildarliða. Um er að ræða nýja keppni í íslenska boltanum sem svipar til rótgróinnar bikarkeppni á Englandi sem kallast EFL Trophy.
Bolton er ríkjandi meistari eftir að hafa fyrr á árinu unnið úrslitaleik fyrir framan 80 þúsund áhorfendur á Wembley.
Í tímavélinni, sem fyrst birtist 2011, er farið til aftur ársins 2000 en þá vann Íslendingalið Stoke þennan bikar. Hann var þá kallaður Framrúðubikarinn, nafn sem hefur fest sig í sessi yfir keppnina meðal íslenskra fótboltaáhugamanna.
Bolton er ríkjandi meistari eftir að hafa fyrr á árinu unnið úrslitaleik fyrir framan 80 þúsund áhorfendur á Wembley.
Í tímavélinni, sem fyrst birtist 2011, er farið til aftur ársins 2000 en þá vann Íslendingalið Stoke þennan bikar. Hann var þá kallaður Framrúðubikarinn, nafn sem hefur fest sig í sessi yfir keppnina meðal íslenskra fótboltaáhugamanna.
„Þetta er eitt af eftirminnilegri augnablikum sem maður hefur farið í gegnum og það var sérstaklega gaman að vinna á Wembley. Þetta gleymist seint,“ segir Guðjón Þórðarson þegar hann rifjar upp sigur Stoke í Framrúðubikarnum, EFL Trophy.
Haustið 1999 keyptu íslenskir fjárfestar enska félagið Stoke City. Guðjón tók í kjölfarið við knattspyrnustjórastöðunni af Gary Megson, Gunnar Þór Gíslason var ráðinn formaður og íslenskir leikmenn voru fengnir til Stoke. Félagið hefur í gegnum tíðina ekki unnið marga titla og því var mikil spenna hjá stuðningsmönnunum þegar Stoke komst í úrslitaleik Framrúðubikarsins um vorið.
Hátt í 60 leikir á tímabilinu:
Keppnin, sem heitir í dag Papa Johns Trophy (Pizzubikarinn?), er fyrir félög sem eru ekki í efstu tveimur deildunum á Englandi. Stoke sigraði Rochdale samanlagt 4-1 í undanúrslitunum en á leið sinni í úrslitaleikinn náði Stoke einnig að leggja Darlington, Oldham, Blackpool og Chesterfield. Þrátt fyrir að nöfnin á keppninni hafi verið nokkuð áhugaverð í gegnum tíðina þá er hún mjög stór fyrir félög í neðri deildunum.
„Stoke fékk töluvert miklar tekjur af þessu og það munaði um það í kassann á þeim tíma. Það eru 48 lið úr deildunum og svo eru utandeildarlið líka í þessu þannig að þetta er hörku helvítis barátta. Með þessu og öðrum bikarkeppnum held ég að við höfum spilað hátt í 60 leiki á þessu tímabili á vegum enska knattspyrnusambandsins. Þetta var hörkuár,“ sagði Guðjón við Fótbolta.net og Gunnar Þór, fyrrum formaður, tekur í sama streng.
„Þetta var mjög gaman. Þetta var ekki stór bikar en menn voru mjög ánægðir með þetta. Það er hefð í kringum úrslitaleiki á Bretlandi. Leikmennirnir eru dressaðir upp í ný föt, menn eru með blóm og það er mikið húllumhæ í kringum þennan neðri deildarbikar,“ sagði Gunnar.
Leikurinn var einn sá síðasti á gamla Wembley og alls mættu rúmlega 75 þúsund áhorfendur á völlinn. Þar á meðal voru fjölmargir Íslendingar sem gerðu sér ferð til Englands til að horfa á leikinn. Einn af þeim var Víðir Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu en hann fjallað um leikinn á sínum tíma.
„Völlurinn var troðfullur, um 76 þúsund manns, og það þýddi að á fjórða tug þúsunda mætti frá hvoru félagi. Það eitt og sér er magnað því bæði Stoke og Bristol City eru "landsbyggðarlið", og því um nokkurt ferðalag að ræða fyrir stuðningsmenn beggja liðanna. Stemningin var eftir þessu, og þetta hefði hæglega getað verið sjálfur bikarúrslitaleikurinn í Englandi, miðað við alla umgjörðina og fólksfjöldann. Það fór ekkert á milli mála að hann skipti gífurlegu máli fyrir liðin og stuðningsmennina,“ segir Víðir.
Guðjón og lærisveinar hans voru á hóteli í Watford fyrir leikinn og þar æfði liðið fyrir stóra daginn þann 16. apríl. Leikurinn byrjaði vel fyrir Stoke því „silfurrefurinn" Graham Kavangh kom liðinu yfir eftir rúman hálftíma. Eftir þetta sótti Bristol í sig veðrið og Guðjón ákvað í kjölfarið að taka Arnar Bergmann Gunnlaugsson af velli og setja varnarmann inn á í hans stað.
„Við vorum að spila 4-4-2 en vorum í miklu basli með kantarana hjá Bristol liðinu. Ég breytti um aðerð og fór í 3-5-2 þar sem ég bætti við hafsent og setti bakverðina fastar á kantarana þeirra og eftir það lokuðum við þessu,“ sagði Guðjón en hann var einnig með Bjarna Guðjónsson og Brynjar Björn Gunnarsson í byrjunarliðinu í leiknum. Sigursteinn Gíslason var aftur á móti utan hóps.
Bristol náði að jafna leikinn á 74. mínútu þegar Paul Holland skoraði en átta mínútum síðar ætlaði allt um koll að keyra hjá stuðningsmönnum Stoke. Peter Thorne, helsti markhrókur liðsins á þessum tíma, náði þá að skora sigurmarkið eftir að Bjarni hafði verið fljótur að taka aukaspyrnu á Kavangh sem gaf fyrir.
„Boltinn fór upp vinstri kantinn og það var brot á milli vítateigs og hliðarlínu. Bjarni tók aukaspyrnu strax sem endaði á því að Thorney skoraði,“ lýsir Guðjón markinu sem má sjá aftarlega í þessu myndbandi.
Lið Stoke í leiknum:
Gavin Ward
Nicky Mohan
Mikael Hansson
Clive Clarke
Brynjar Björn Gunnarsson
James O‘Connor
Graham Kavanagh
Bjarni Guðjónsson
Arnar Bergmann Gunnlaugsson
Peter Thorne
Kyle Lightbourne
Varamenn sem komu við sögu:
Richard Dryden
Chris Iwelumo
Keegan var heiðursgestur
Kevin Keegan, þáverandi landsliðsþjálfari Englendinga, var heiðursgestur á leiknum og hann afhenti Stoke verðlaunin eftir leik. Guðjón og lærisveinar hans löbbuðu þá upp frægu tröppurnar í stúkunni til að taka við verðlaununum.
„Það var magnað að leiða liðið út á Wembley, sagan var þarna út um allt og það var mjög skemmtilegt að labba upp þessar frægu tröppur til að ná í sigurverðlaunin.“
Stoke átti 36 þúsund stuðningsmenn á leiknum á Wembley og eftir leik gátu þeir fagnað vel og innilega. Fagnaðarhöldin héldu síðan áfram þegar liðið kom aftur til Stoke-on-Trent daginn eftir.
„Í takti við ensku hefðina óku leikmenn Stoke með bikarinn á opnum vagni um borgina daginn eftir. Mannfjöldinn sem hyllti liðið á þeirri keyrslu var hreint ótrúlegur og mér varð hugsað til þess hvað myndi eiginlega gerast ef þetta félag ynni einhvern tímann virkilega stóran titil,“ segir Víðir Sigurðsson þegar hann rifjar daginn upp en hann fékk að vera með liði Stoke í rútunni sem keyrði um götur bæjarins.
Stoke náði ekki að komast upp um deild um vorið eftir að hafa unnið Framrúðubikarinn en tímabilið 2001/2002 komst félagið loks upp í næstefstu deild undir stjórn Guðjóns. Þrátt fyrir það fékk Guðjón að taka pokann sinn og Steve Cotterill var ráðinn í hans stað. Hann hætti fljótlega til að taka við sem aðstoðarstjóri hjá Sunderland og í kjölfarið var Tony Pulis ráðinn stjóri. Í júní árið 2005 var Pulis rekinn og hinn hollenski Johan Boskamp ráðinn í hans stað. Eftir tímabilið 2005/2006 keypti Peter Coates félagið og um leið hætti Gunnar Þór sem formaður. Boskamp var rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra og Tony Pulis fékk að taka aftur við en hann stýrði liðinu til 2013.
Fjölmargir íslenskir leikmenn léku með Stoke á þeim tíma sem félagið var í eigu Íslendinga og að lokum má hér að neðan sjá lista yfir þá.
Listi yfir íslenska leikmenn hjá Stoke frá 1999-2005:
Einar Þór Daníelsson (1999-2000)
Sigursteinn Gíslason (1999-2000)
Brynjar Björn Gunnarsson (2000-2003)
Bjarni Guðjónsson (2000-2003)
Ríkharður Daðason (2000-2002)
Birkir Kristinsson (2000-2001)
Hjörvar Hafliðason (2000-2001)
Arnar Bergmann Gunnlaugsson (2000 og 2002)
Stefán Þór Þórðarson (2000-2002)
Pétur Hafliði Marteinsson (2001-2003)
Þórður Guðjónsson (2005)
Tryggvi Guðmundsson (2005)
Ef lesendur hafa ábendingar um áhugavert efni í "Tímavélina" má senda tölvupóst á [email protected]
Sjá einnig:
Eldra efni í Tímavélinni