Tveimur seinni leikjum kvöldsins er lokið í Lengjudeild karla, þar sem Keflavík tók á móti Gróttu á meðan Leiknir R. fékk Fjölni í heimsókn í nágrannaslag.
Lestu um leikinn: Keflavík 2 - 1 Grótta
Í Reykjanesbæ leiddi Grótta í hálfleik eftir að Kristófer Orri Pétursson skoraði skömmu fyrir leikhlé. Keflvíkingar höfðu verið sterkari aðilinn og skoraði Kristófer Orri gegn gangi leiksins.
Keflavík skipti um gír í síðari hálfleik og óð í dauðafærum þar til Sindri Snær Magnússon jafnaði leikinn með glæsilegu marki eftir laglegt einstaklingsframtak, eftir að Keflavík hafði unnið boltann hátt uppi á vellinum.
Leikurinn jafnaðist aðeins út eftir jöfnunarmarkið en Keflvíkingar voru áfram hættulegri og skoraði Ari Steinn Guðmundsson á 76. mínútu. Aftur unnu heimamenn boltann hátt uppi á vellinum og átti Sami Kamel stoðsendinguna á Ara Stein, en markvörður Gróttu réði ekki við bylmingsskotið frá honum.
Keflvíkingar fengu frábær færi til að tryggja sigurinn á lokakaflanum en klúðruðu færunum sínum. Seltirningar fengu eitt dauðafæri en klúðruðu því og urðu lokatölur 2-1 fyrir Keflavík í afar fjörugum leik.
Verðskuldaður sigur fyrir Keflavík sem hefði hæglega getað unnið með stærri mun. Keflvíkingar eru með 15 stig eftir 12 umferðir um miðja deild, en þetta var fyrsti sigur liðsins í rúman mánuð.
Grótta situr áfram í fallsæti, með 10 stig. Þetta var sjötti tapleikur liðsins í röð en Seltirningar hafa ekki unnið deildarleik síðan í lok maí.
Keflavík 2 - 1 Grótta
0-1 Kristófer Orri Pétursson ('42)
1-1 Sindri Snær Magnússon ('52)
2-1 Ari Steinn Guðmundsson ('76)
Leikurinn fór rólega af stað í Breiðholti en Fjölnismenn tóku forystuna á 24. mínútu með verulega föstu og góðu skoti úr þröngu færi. Dagur Ingi Axelsson skoraði markið eftir sendingu frá Mána Austmanni Hilmarssyni, sem slapp í gegn skömmu síðar en mistókst að tvöfalda forystu gestanna.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 0 - 1 Fjölnir
Leiknir fékk færi til að jafna en Halldór Snær Georgsson varði vel og var staðan 0-1 eftir góðan fyrri hálfleik.
Fjölnir var sterkari aðilinn í síðari hálfleik en tókst ekki að bæta við forystuna. Leiknismenn fengu einnig sín færi en að lokum tókst engum að skora og urðu lokatölurnar í Breiðholti 0-1.
Fjölnir trónir á toppi Lengjudeildarinnar með 27 stig eftir 12 umferðir, sjö stigum fyrir ofan Njarðvík sem á leik til góða.
Leiknir er í fallbaráttu, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Leiknir R. 0 - 1 Fjölnir
0-1 Dagur Ingi Axelsson ('24)
Athugasemdir