Þróttur R. 2 - 1 ÍBV
1-0 Liam Daði Jeffs ('38)
2-0 Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson ('58)
2-1 Tómas Bent Magnússon ('60)
1-0 Liam Daði Jeffs ('38)
2-0 Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson ('58)
2-1 Tómas Bent Magnússon ('60)
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 1 ÍBV
Þróttur R. tók á móti ÍBV í fyrsta leik kvöldsins í Lengjudeild karla og fór viðureignin afar fjörlega af stað þar sem bæði lið komust í góð færi.
Heimamenn voru fyrri til að koma boltanum í netið og var þar enginn annar en Liam Daði Jeffs, sonur Eyjamannsins mikla Ian Jeffs, á ferðinni. Hinn 18 ára gamli Liam Daði skoraði eftir slæm mistök í varnarleik Eyjamanna, þar sem Sigurður Arnar Magnússon missti boltann til Vilhjálms Kaldal Sigurðssonar.
Liam skoraði skömmu eftir að Eyjamenn höfðu fengið dauðafæri á hinum enda vallarins, og var staðan 1-0 í leikhlé.
Þróttur bætti öðru marki við snemma í síðari hálfleik þegar Vilhjálmur Kaldal fylgdi sláarskoti eftir með marki og tókst gestunum frá Vestmannaeyjum að svara fyrir sig skömmu síðar, með skoti frá Tómasi Bent Magnússyni sem hafði viðkomu í varnarmanni áður en boltinn fór í netið.
ÍBV jók sóknarþungan er tók að líða á seinni hálfleikinn og komst afar nálægt því að jafna metin á lokakafla leiksins, en tókst ekki.
Það var spilaður gríðarlega langur uppbótartími, þar sem nokkuð var um meiðsli og önnur vandræði. ÍBV kom boltanum í netið á 96. mínútu en dæmt sóknarbrot og staðan því áfram 2-1. Það var ekki fyrr en á 104. mínútu sem Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson dómari flautaði leikinn loks af.
Niðurstaðan 2-1 sigur Þróttar, sem er þeirra þriðji sigur í röð í Lengjudeildinni.
Þróttur er um miðja deild með 15 stig eftir 12 umferðir, fjórum stigum á eftir ÍBV sem situr áfram í þriðja sæti.
Athugasemdir