Man Utd gæti gert tilboð í Berge - Arsenal hefur enn áhuga á Osimhen - Tottenham hefur áhuga á Solanke
   fim 11. júlí 2024 21:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sambandsdeildin: Lúkas Logi jafnaði á 99. mínútu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 2 - 2 Vllaznia
1-0 Guðmundur Andri Tryggvason ('12)
1-1 Ardit Krymi ('22)
1-2 Kevin Dodaj ('85)
2-2 Lúkas Logi Heimisson ('99)
Rautt spjald: Ardit Deliu, Vllaznia ('82)

Lestu um leikinn: Valur 2 -  2 Vllaznia

Valur tók á móti albanska félaginu Vllaznia í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld og tók Guðmundur Andri Tryggvason forystuna strax á tólftu mínútu.

Valur byrjaði af miklum krafti gegn albönsku gestunum og skoraði Guðmundur með skoti úr góðu færi eftir flottan undirbúning frá Sigurði Agli Lárussyni, sem komst upp að endalínu áður en hann gaf boltann út í teiginn.

Albanarnir jöfnuðu leikinn tíu mínútum síðar með skallamarki eftir aukaspyrnu og var staðan 1-1 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik.

Valsarar mættu inn í seinni hálfleikinn af krafti og komust nokkrum sinnum nálægt því að skora án þess að takast markmið sitt. Pressa Vals var þung en gestirnir vörðust vel og beittu skyndisóknum.

Ardit Deliu fékk að líta seinna gula spjaldið sitt á 82. mínútu og þá voru aðeins tíu leikmenn eftir á vellinum í liði gestanna. Val tókst þó ekki að nýta sér liðsmuninn, þess í stað voru það gestirnir sem skoruðu næsta mark.

Tíu Albanar tóku forystuna á Hlíðarenda þegar varamaðurinn ungi Kevin Dodaj skoraði glæsilegt mark með flottu skoti utan vítateigs. Við það brutust út mikil fagnaðarlæti meðal gestanna.

Valsarar fengu færi til að gera jöfnunarmark í uppbótartímanum sem hélt áfram að lengjast vegna meiðsla, en það var á 99. mínútu sem markið leit loks dagsins ljós. Lúkas Logi Heimisson var þar á ferðinni með marki beint úr hornspyrnu, þar sem boltinn hafði viðkomu í slánni áður en hann söng í netinu.

Niðurstaðan því 2-2 jafntefli og ljóst að Valur á erfiðan útileik framundan í Albaníu.
Athugasemdir
banner
banner
banner