Dagný Brynjarsdóttir hefur farið hamförum með West Ham á þessari leiktíð en hún skoraði eitt mark í 2-0 sigri á Tottenham í dag.
Þetta var sjö mark hennar í fyrstu 10 leikjum tímabilsins. Staðan var markalaus í hálfleik en hún hefði getað komið liðinu í forystu undir lok hálfleiksins en klikkaði á vítaspyrnu.
Hún bætti hins vegar upp fyrir það snemma í síðari hálfleik og kom liðinu yfir. West Ham er í 5. sæti með 15 stig eftir 10 leiki.
Sara Björk Gunnarsdóttir lagði upp eitt mark í 4-2 sigri Juventus gegn Roma. Um var að ræða alvöru toppslag þar sem Juventus tókst að minnka forskot Roma á toppnum niður í 3 stig.
Sara framlengdi langa sendingu fram með því að skalla boltann inn fyrir vörn Roma og Lineth Beerensteyn kláraði færið vel. Sara þurfti hins vegar að fara af velli stuttu síðar vegna meiðsla.
Sveindís Jane Jónsdóttir átti frábæran leik fyrir Wolfsburg í Meistaradeildinni í vikunni en hún byrjaði á bekknum í dag gegn Meppen. Hún spilaði síðasta hálftíman í 3-0 sigri.
Liðið er því komið aftur með fimm stiga forystu á Bayern á toppnum eftir 10 umferðir.