Íslenski varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson var í vörn Pisa í kvöld sem gerði markalaust jafntefli við Frosinone í ítölsku B-deildinni.
Fylkismaðurinn var inn og út úr byrjunarliði Pisa í byrjun leiktíðar en hann er svo sannarlega búinn að festa sæti sitt í hjarta varnarinnar.
Liðið hélt hreinu þriðja leikinn í röð er það gerði markalaust jafntefli við Frosinone.
Hjörtur spilaði allan leikinn en hann hefur byrjað síðustu fjóra leiki og aðeins fengið á sig eitt mark.
Það vekur þá sérstaka athygli að liðið hefur ekki tapað í síðustu átta leikjum sem hann hefur byrjað í vörninni.
Pisa er í 7. sæti með 23 stig og er sem stendur í umspilssæti en liðið var grátlega nálægt því að komast upp í Seríu A á síðasta tímabili en liðið tapaði fyrir Monza eftir framlengingu í úrslitum umspilsins.
Athugasemdir