
Ítalski dómarinn Daniele Orsato mun dæma leik Argentínu og Króatíu í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Katar á þriðjudag en þetta kemur fram í öllum helstu miðlunum á Ítalíu.
Orsato þykir einn besti dómari heims. Hann dæmdi opnunarleikinn á milli Ekvador og Katar. Þá dæmdi hann leik Argentínu og Mexíkó í riðlakeppninni.
Hann var hvíldur í 16-liða úrslitum og í 8-liða úrslitum en snýr nú aftur í undanúrslitum.
Orsato verður aðaldómari í leik Argentínu og Króatía og þá verður Massimiliano Irrati VAR-dómari.
Dómarar á HM hafa fengið mikla gagnrýni fyrir dómgæsluna í útsláttarkeppninni og því mikil pressa á Orsato og hans liði.
Orsato mun sjá mörg kunnugleg andlit á vellinum á þriðjudag enda margir sem spila í Seríu A, þar sem Orsato dæmir.
Athugasemdir