
Enska pressan keppist um að finna út hvað fór úrskeðis hjá enska landsliðinu á HM í ár en liðið féll úr leik eftir tap gegn Frakklandi í gær.
Jamie Carragher segir að Southgate hefði átt að bregðast betur við aðstæðum.
„Þegar þú tapar hugsaru alltaf hvort þú hefðir getað gert eitthvað öðruvísi. Ég hugsaði fyrir leikinn að enska liðið þurfti hugrekki til að gera breytingar í leiknum. Við jöfnum og Frakkar komast aftur yfir, þá gerum við breytingar. Við hefðum átt að vera hugrakkari milli þessara tveggja marka," sagði Carragher.
„Með fimm skiptingum er það stór hluti fyrir þjálfarann að hafa áhrif á leikinn. Frakkar voru ekki betri en við, við vorum með sterkasta bekkinn á mótinu og hefðum átt að gera eitthvað í stöðunni 1-1."
Southgate hefur verið umdeildur en margir virðast standa við bakið á honum og treysta honum til að halda áfram með liðið.