Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 12. júlí 2024 12:30
Elvar Geir Magnússon
Spátapírinn hefur spáð fyrir úrslitaleik EM
Tapírinn spáir sigri Spánar.
Tapírinn spáir sigri Spánar.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Eins og venja er þá eru mis getspök dýr látin spá fyrir um úrslit leikja á stórmótum í fótbolta.

Frægast af þessum dýrum er líklega kolkrabbinn Páll sem öðlaðist heimsfrægð í kringum heimsmeistaramótið í Suður-Afríku 2010. Páll heitinn bjó í sædýrasafni í Þýskalandi og giskaði rétt á alla leiki Þjóðverja í keppninni sem og á rétt úrslit í úrslitaleiknum sjálfum.

Rússneski björninn sem spáði sigri Íslands gegn Argentínu 2018 vakti athygli. Leikurinn endaði 1-1. Spádómssvínið Markús kom sér einnig í fréttirnar og ljón sýndi getspeki sína á síðasta heimsmeistaramóti.

Nú er það hinsvegar brasilíski kvenkyns tapírinn Khao Knong sem vekur mesta athygli. Hún er 21 árs og átta mánaða gömul og býr í dýragarði í Tælandi.

Hún hefur spáð fyrir um úrslitin í sjálfum úrslitaleiknum á sunnudag, viðureign Spánar og Englands.

Þjóðfánar beggja liða voru hengdir á tvær markstangir og hver um sig var með laufum og ýmsum ávöxtum. Khao Knong valdi að borða við spænska fánann og spáir þar með Spánverjum sigri.

Tapírar eru skemmtileg hófdýr með stuttan rana og eru á stærð við asna. Þrjár af fjórum tapírategundunum lifa í Suður-Ameríku en ein tegund finnst í sunnanverðri Asíu. Heildarstofn allra tegunda tapíra hefur minnkað talsvert undanfarna áratugi og teljast allar tegundirnar vera í hættu.
Athugasemdir
banner
banner
banner