Hnefaleikakappinn Tyson Fury hefur staðfest þær fregnir að Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, ætli að æfa með honum fyrir bardaga hans gegn Oleksandr Usyk.
Fury, sem er mikill stuðningsmaður Manchester United, er ríkjandi heimsmeistari í þungavigt.
Hann varði beltið fyrr í þessum mánuði er hann sigraði Derek Chisora í tíu lotum á Tottenham Hotspur-leikvanginum í Lundúnum en næsti bardagi hans er gegn Úkraínumanninum Oleksandr Usyk.
Fyrir þann bardaga ætlar hann að fá Rooney til að æfa með sér og mun fyrrum landsliðsmaðurinn vera með honum í æfingabúðum í fjórar vikur. Það er ekki búið að finna endanlega dagsetningu fyrir bardagann en það má gera ráð fyrir hann verði í febrúar eða mars.
Rooney, sem er þjálfari bandaríska liðsins D.C. United í dag, er mikill áhugamaður um hnefaleiki og mætir reglulega á bardaga.
„Ég talaði við Wayne og hann er klár í þetta. Við ætlum að fá hann inn í undirbúningnum fyrir bardagann gegn Oleksandr Usyk og nei, ég er ekkert að grínast. Mér er full alvara. Hann mun koma í æfingabúðirnar og mun hjálpa mér þessar fjórar vikur,“ sagði Fury.
Athugasemdir