Enzo Maresca var ekki sáttur eftir 2-2 jafntefli Chelsea gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Chelsea tók forystuna í fyrri hálfleik og skapaði sér góð færi en tókst ekki að tvöfalda.
Bournemouth jafnaði í síðari hálfleik og tók forystuna, áður en Reece James tókst að gera jöfnunarmark fyrir Chelsea í uppbótartíma til að bjarga stigi.
„Við vorum algjörlega við stjórn í fyrri hálfleik og áttum skilið að skora fleiri mörk, en svona er fótboltinn. Það neikvæða er hvernig við brugðumst við markinu þeirra, við færðum okkur aftar á völlinn og þá varð leikurinn jafn. Við áttum skilið að sigra þennan leik miðað við færin sem við sköpuðum okkur í fyrri hálfleik," sagði Maresca, en þetta var fimmti deildarleikurinn í röð hjá Chelsea án sigurs og getur liðið dottið niður í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar ef Newcastle sigrar sinn leik annað kvöld.
„Þetta hefur gerst alltof oft í síðustu fjórum eða fimm leikjum að við eigum gott færi og fáum svo mark á okkur eftir skyndisókn beint í kjölfarið. Auðvitað er ég áhyggjufullur, þetta er enska úrvalsdeildin, en miðað við færin sem við erum að skapa þá eigum við eftir að snúa þessu fljótt við. Fyrri hálfleikurinn í kvöld er einn af bestu hálfleikjum sem við höfum spilað saman sem lið."
Maresca var svo spurður út í atvik sem átti sér stað í leiknum þegar David Brooks leikmaður Bournemouth reif Marc Cucurella niður í atviki fjarri boltanum. Brooks reif Cucurella niður á hárinu og fékk gult spjald eftir athugun í VAR-herberginu.
„Mér fannst þetta rautt spjald. Við höfðum heppnina ekki með okkur í þessari ákvörðun."
Athugasemdir