Viktor Gyökeres, framherji Sporting og sænska landsliðsins, hefur lengi verið orðaður við Man Utd og sá orðrómur varð meiri eftir að Rúben Amorim tók við enska félaginu.
Amorim stýrði Gyökeres hjá Sporting þar sem hann hefur skorað 66 mörk í 68 leikjum síðan hann gekk til liðs við félagið frá Coventry í fyrra.
The Sun greinir frá því að njósnarar Man Utd voru mættir til Svíþjóðar um helgina til að sjá hann spila með landsliðinu gegn Slóvakíu í Þjóðadeildinni en hann skoraði og lagði upp í 2-1 sigri og liðið tryggði sér sæti í B deild um leið.
Gyökeres var spurður út í áhuga annarra liða eftir leikinn.
„Ég er ekki að hugsa um að skipta um félag, mér líður mjög vel hjá Sporting og ég er ekki að flýta mér að gera neitt. Orðrómar hafa engin áhrif á mig. Ég ætla að klára tímabilið hjá Sporting," sagði Gyökeres en Bayern og PSG eru einnig sögð hafa áhuga á honum.