Man Utd orðað við tvo leikmenn Sporting - Hvað verður um Neymar? - Fyrrum lærisveinn Slot orðaður við Liverpool - Nær Arsenal í Vlahovic?
   mán 18. nóvember 2024 14:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Nennir einhver að sýna Heimi Hallgrímssyni mynd af John Stones?"
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands.
Mynd: Getty Images
Næsta ár verður mikilvægt fyrir Heimi.
Næsta ár verður mikilvægt fyrir Heimi.
Mynd: Getty Images
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands, var allt annað en sáttur eftir 5-0 tap gegn Englandi í Þjóðadeildinni í gær. „Við misstum hausinn og það var engin leið til baka," sagði Heimir og bætti við að hann væri orðlaus.

Heimir fær nokkra gagnrýni í írskum fjölmiðlum og þar á meðal frá Eamon Dunphy, fyrrum landsliðsmanni Íra, sem gagnrýni upplegg Íslendingsins á Wembley.

„Það er stór drengur sem spilar fyrir Manchester City sem heitir John Stones. Nennir einhver að sýna Heimi Hallgrímssyni mynd af Stones?" skrifar Dunphy í pistli fyrir Irish Mirror.

„Af einhverri furðulegri ástæðu, þá hélt Heimir að Nathan Collins væri Stones. Sá síðarnefndi spilar oft þannig hlutverk hjá City að hann fer úr miðverði og inn á miðjuna. Heimir reyndi að fá Collins til að gera það sama. Gegn Englandi á Wembley. Guð minn góður."

„Collins er ekki Stones. Írland er ekki City. Og Heimir er ekki Pep Guardiola."

Dunphy segir að um hræðileg taktísk mistök hafi verið að ræða sem hafi að stóru leyti orsakað hræðilegan seinni hálfleik. „Þetta lætur mig velta fyrir mér hvort að Heimir sé með það sem þarf til. Getur einhver sagt mér hvort Írland hafi bætt sig í síðustu þremur gluggum? Ég sé það ekki."

Jafnframt er talað um að þetta hafi verið versta frammistaða Írlands í 53 ár, síðan þeir töpuðu 6-0 gegn Austurríki. Garry Doyle, fréttamaður hjá Mirror, skrifar um það. Hann segir að Heimir verði að fá tíma en setur samt sem áður spurningamerki við ráðningu hans. Hann hefði viljað fá Damien Duff til að taka við liðinu.

Þetta starf er alls ekki auðvelt, það er alveg augljóst.

En Heimir fer inn í næsta ár sem landsliðsþjálfari Írlands og þá tekur alvaran við þegar undankeppni HM 2026 fer af stað. Þar er það að duga eða að drepast fyrir hann því hann hefur ekki náð að vinna sér inn mikið svigrúm hingað til.
Athugasemdir
banner
banner
banner