Man Utd orðað við tvo leikmenn Sporting - Hvað verður um Neymar? - Fyrrum lærisveinn Slot orðaður við Liverpool - Nær Arsenal í Vlahovic?
   mán 18. nóvember 2024 12:00
Hafliði Breiðfjörð
Neville Southall heiðursgestur þegar Heimaleikurinn hitar upp í Cardiff í kvöld
Mynd: Heimaleikurinn
Stuðningsmenn Wales sem sáu íslensku fótboltaheimildarmyndina Heimaleikinn á kvikmyndahátíð í Wrexham í vor hafa skipulagt bíó sýningu á myndinni í tengslum við leik Wales og Íslands í þjóðadeildinni.

Sýningin fer fram í Chapter í Cardiff í kvöld, mánudagskvöld klukkan 18.30 og er til þess ætluð að hita stuðningsmenn upp fyrir leik þjóðanna kvöldið eftir.

Heimaleikurinn fjallar um klaufalega tilraun Kára Viðarssonar til að fá heimaleik í Mjólkurbikar karla fyrir Reyni frá Hellissandi í fyrsta sinn og von hans að allir í þorpinu sem vilji spila fái að vera með, þar á meðal fyrrverandi úrvalsdeildarleikmaðurinn Freydís Bjarnadóttir.

Heimaleikurinn er búinn að ferðast á kvikmyndahátíðir út um allan heim síðastliðið ár og vinna til fjölda verðlauna en myndin spilaði sig inn í hjörtu stuðningsmanna Wales í Wrexham sem tengja sterkt við Ísland eftir að báðar þjóðirnar áttu sín eigin Öskubusku ævintýri á EM 2016.

Að sögn skipuleggjenda viðburðarins þá var litið á sigur Íslands gegn Englandi á mótinu sem hluta af frábærum árangri Wales og töldu þeir að sýning á Heimaleiknum væri frábært tækifæri til að hita stuðningsmenn upp fyrir leik þjóðanna og breiða út boðskapnum um hversu fallegur fótboltinn getur verið.

Fyrrum markvörður velska landsliðsins, og Everton goðsögnin, Neville Southall verður einn af heiðursgestum sýningarinnar. Smári Gunnarsson leikstjóri og vel valdir leikmenn Reynis munu svara spurningum úr sal eftir sýningu.

Íslenskir stuðningsmenn sem verða í Cardiff til að styðja Ísland eru velkomnir á sýninguna, miðasala og frekari upplýsingar eru hér.
Athugasemdir
banner
banner