Belgíski varnarmaðurinn Toby Alderweireld hefur gefið út að hann muni leggja skóna á hilluna í sumar þegar samningur hans við Antwerp rennur út.
Alderweireld er 35 ára en hann hóf ferilinn hjá Ajax þar sem hann var þrisvar sinnum hollenskur meistari. Hann spilaði eitt tímabil með Atletico Madrid þar sem hann varð spænskur meistari og liðið fór einnig í úrslit Meistaradeildarinnar.
Þá lék hann einnig með Southampton og Tottenham. Hann samdi við Antwerp í heimalandinu árið 2022 og skrifaði undir þriggja ára samning. Hann skoraði dramatískt sigurmark í lokaumferðinni á síðustu leiktíð sem tryggði liðinu titilinn.
Hann spilaði 127 landsleiki fyrir hönd Belgíu. Hann fór á fimm stórmót með þjóð sinni en hann var hluti af gullkynslóð Belgíu sem náði sínum besta árangri þegar liðið náði 3. sætinu á HM 2018.