Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 22. desember 2020 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Gróttublaðið 
Sveindís, Íris og Katla á hjólabretti í Keflavík - „Allt of miklir töffarar"
Sveindís setti upp sólgleraugun eftir leik í sumar.
Sveindís setti upp sólgleraugun eftir leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Katla María
Katla María
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Íris Una
Íris Una
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Sveindís Jane var valin besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar að loknu tímabili. Hún varð Íslandsmeistari með Breiðabliki en hún var að láni frá uppeldisfélagi sínu Keflavík.

Sveindís, sem er nítján ára gömul, lék gífurlega vel í deildinni skoraði fjórtán mörk í fimmtán leikjum og var jöfn liðsfélaga sínum Öglu Maríu Albertsdóttur í baráttunni um markadrottningartitilinn. Þá stimplaði Sveindís sig af krafti inn í A-landsliðið og lék sína fyrstu leiki þar í haust.

Sjá einnig:
Best 2020: Senda hana til Frakklands (5. nóv)

Sveindís var í viðtali sem kom út á dögunum í jólablaði Gróttu. Þar má lesa viðtalið við Sveindísi í heild sinni ásamt viðtölum við Orra Stein Óskarsson, Viggó Kristjánsson og Bjarka Má Ólafsson svo eitthvað sé nefnt.

Á hjólabretti í Keflavík
Þar kom hún inn á uppvaxtarárin í Keflavík og það sem hún var að bralla með Írisi Unu og Kötlu Maríu Þórðardætrum, sem nú leika með Fylki.

Hvenær byrjaði Sveindís að æfa og hvenær kviknaði alvöru áhugi og metnaður fyrir fótboltanum?

„Ég byrjaði frekar seint að æfa eða á eldra ári í 6. flokki þegar ég var 9 eða 10 ára. Fram að því hafði ég bara verið úti að leika mér og æfði aldrei aðrar íþróttir. Ég prófaði körfubolta en fannst það frekar leiðinlegt og gafst upp eftir nokkrar æfingar," sagði Sveindís. Viðtalið við hana var tekið undir lok nóvember.

„Alvöru áhuginn kviknaði svo nokkuð fljótt. Mér gekk vel þó ég hafi byrjað seint og eignaðist góðar vinkonur í liðinu. Sérstaklega tvíburana Írisi og Kötlu (Þórðardætur) sem spila núna með Fylki. Við urðum fljótt óaðskiljanlegar og eyddum miklum tíma í rútunni milli Keflavíkur og Sandgerðis þar sem þær búa. Við vorum alltaf mættar löngu fyrir æfingar og lékum okkur þá í fótbolta. Við litum ekki svo á að við værum á einhverri aukaæfingu heldur vorum við bara að gera það sem okkur fannst skemmtilegt."

„Um 14 ára aldur urðum við reyndar mjög áhugasamar um hjólabretti og byrjuðum að „skeita” út um allan bæ. Við vorum mest með strákunum og nenntum lítið að hanga með öðrum stelpum. Ætli við höfum ekki verið frekar leiðinlegar á þessum árum – allt of miklir töffarar,”
segir Sveindís og hlær þegar hún rifjar upp unglingsárin á Suðurnesjunum.

Sveindís er ættuð frá Gana og kemur nafnið Jane frá ömmu hennar sem hét Janet. Meira um það í blaðinu.

Spáði í að fara í minna lið en Breiðablik
Gengið í sumar var gott en bjóst Sveindís við þessu?

„Nei, ég átti bara alls ekki von á þessu. Ég var meira að segja að spá í að fara í minna lið til að vera nokkuð örugg um að fá spiltíma en Gunni (Gunnar Magnús Jónsson) þjálfarinn minn í Keflavík sagði að það kæmi ekkert annað til greina en að fara í Val eða Breiðablik. Ég væri alveg nógu góð," segir Sveindís og hlær. „Ég hafði líklega ekki alveg nógu miklu trú á sjálfri mér en sem betur fer vissi Gunni hvað væri rétta skrefið.”

Stekkur kannski á eitthvað spennandi í Evrópu
Sveindís var spurð út í framtíð sína. Viðtalið var, eins og áður segir, tekið í lok nóvember. Síðan hefur hún verið orðuð við félagaskipti til Wolfsburg.

„Það hafa komið margar fyrirspurnir núna í haust og ég er að skoða málin. Þetta er allt saman mjög stressandi og ég veit satt best að segja ekki alveg hvað ég á að gera. Kannski verð ég annað tímabil á Íslandi eða stekk á eitthvað spennandi tækifæri í Evrópu," sagði Sveindís.
Athugasemdir
banner