Hákon Arnar Haraldsson byrjar tímabilið vel með franska liðinu Lille en hann lagði upp mark annan leikinn í röð er Lille vann Angers, 2-0, í frönsku deildinni í dag.
Fyrsta tímabil Skagamannsins fór í það að læra inn á deildina og liðið, sem hefur reynst Íslendingum erfitt að aðlagast.
Nú er hann kominn með fast hlutverk í liðinu og hefur byrjað frábærlega. Í síðasta leik liðsins lagði hann upp í 2-0 sigri á Slavía Prag í umspili um sæti í Meistaradeild Evrópu og var hann aftur skapandi í dag.
Hákon lagði upp fyrra mark Lille gegn Angers. Thomas Meunier labbaði í gegnum varnarmenn Angers hægra megin á vellinu, tók þríhyrningsspil við Hákon áður en hann skaut boltanum í vinstra hornið. Frábært samspil hjá þeim félögunum.
Lille bætti við öðru undir lokin og vann sanngjarnan 2-0 sigur, en liðið hefur unnið báða deildarleiki sína á tímabilinu.
Davíð Kristján Ólafsson var í byrjunarliði Cracovia sem vann 3-2 sigur á Gornik Zabrze í pólsku úrvalsdeildinni. Cracovia er að eiga draumabyrjun á tímabilinu en liðið er á toppnum með 13 stig eftir sex leiki.
Adam Ægir Pálsson var í byrjunarliði Perugia sem átti ótrúlega endurkomu í 3-3 jafntefli gegn Pianese í C-deildinni á Ítalíu. Lið Adams lenti þremur mörkum undir en kom til baka. Undir lokin gat Pianese unnið leikinn er það fékk vítaspyrnu, en markvörður Perugia varði og tryggði sínum mönnum stig. Þetta var fyrsti deildarleikur tímabilsins hjá liðunum.
Kristófer Jónsson kom inn af bekknum í 3-0 sigri Triestina á Arzignano í C-deildinni á meðan Stígur Diljan Þórðarson var ónotaður varamaður.
Ari Leifsson lék þá allan leikinn í vörn Kolding sem gerði markalaiust jafntefli við Roskilde í B-deildinni í Danmörku. Kolding er með 9 stig í 9. sæti.
Athugasemdir