Liverpool horfir til Þýskalands, nýir eigendur Everton eru hrifnir af Southgate og Leeds ætlar að stækka heimavöll sinn
banner
   þri 24. september 2024 14:30
Elvar Geir Magnússon
Hefur safnað rúmum tíu milljónum til að laga völlinn
Undirlagið er ónýtt á heimavelli Wimbledon.
Undirlagið er ónýtt á heimavelli Wimbledon.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmaður enska D-deildarliðsins Wimbledon setti af stað söfnun til að laga heimavöll liðsins. Söfnunin hefur gengið framar vonum og þegar hafa safnast yfir 10 milljónir króna, um 56 þúsund pund.

Í kvöld átti að fara fram deildabikarleikur Wimbledon og Newcastle á vellinum en honum hefur verið frestað til 1. október og verið færður á St James’ Park, heimavöll Newcastle.

Gríðarleg rigning skapaði flóð á vellinum og við Cherry Red Records leikvanginn. Undirlag vallarins eyðilagðist eins og sjá má á mynd með fréttinni. Á einum sólarhring kom meiri úrkoma en kemur að meðaltali á einum mánuði og búið er að soga yfir 100 þúsund lítra af vatni úr vellinum.

Graham Stacey, fimmtugur stuðningsmaður Wimbledon, setti söfnunina af stað með það markmiði að ná að safna 50 þúsund pundum. Hann er þegar kominn yfir það markmið.

Newcastle United lagði sitt af mörkum og lagði um 3 milljónir í söfnunina.

Í yfirlýsingu Wimbledon segir félagið það leitt að ekki sé hægt að leika komandi bikarleik á þeirra velli en félagið er í viðræðum um rútufyrirtæki um að ferja stuðningsmenn til Newcastle þann 1. október.
Athugasemdir
banner
banner