City og Real keppa um Musiala - Newcastle vill Calvert-Lewin - Gyökeres eftirsóttur af enskum félögum
   mán 23. september 2024 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Danny Guthrie vildi fá Harald Einar til Dúbaí
Haraldur EInar.
Haraldur EInar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guthrie vann Lengjudeildina með Fram sumarið 2021. Þar voru hann og Haraldur Einar liðsfélagar.
Guthrie vann Lengjudeildina með Fram sumarið 2021. Þar voru hann og Haraldur Einar liðsfélagar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í útvarpsþættinum Fótbolti.net var Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, spurður út í sögu af áhuga á Haraldi Einari Ásgrímssyni frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Danny Guthrie, fyrrum leikmaður Fram, Liverpool og Newcastle, vildi fá Harald Einar á láni til Dúbaí þar sem hann er þjálfari hjá félagi í neðri deildunum. Hann og Haraldur léku saman hjá Fram tímabilið 2021.

„Við getum ekki sagt að þetta hafi verið tilboð, þeir vildu fá hann á láni en ekki borga fyrir hann. Þetta hefði verið ævintýri fyrir Harald, hann langaði að fara, en það voru einhverjir hnökrar í þessu. Ég var jákvæður á það að Halli gæti farið, en við þyrftum fyrst að tryggja veru okkar í deildinni. Maður vill ekki stoppa menn í að fara í svona ævintýri, en ég veit ekki hversu góð deild þetta er. En vissulega ævintýri," sagði Rúnar í þættinum.

„Það kom fyrirspurn frá Danny Guthrie um að fá Halla á láni. Við svöruðum á þá leið að við þyrftum að skoða það, vildum fyrst klára leikinn á móti FH (um síðustu helgi). Við spurðum svo hvað þeir myndu borga fyrir Halla, hvernig væri með tryggingar ef hann myndi meiðast, hvenær hann þyrfti að vera kominn til þeirra og hvenær hann gæti verið kominn aftur til okkar. Hugsunin þar var að við vildum fá hann nægilega snemma fyrir undirbúning á næsta tímabili," segir Daði Guðmundsson, rekstrarstjóri fótboltadeildar Fram, við Fótbolta.net í dag.

„Við fengum í raun engin svör við því. Svo komu skilaboð frá umboðsmanninum hans Halla um að félagið gæti ekki beðið lengur og hefðu fundið annan leikmann í þessa stöðu. Við vorum að bíða eftir frekari uppýsingum frá þeim, vorum alveg jákvæðir fyrir því að hann færi," bætti Daði við.

Haraldur Einar Ásgrímsson er 24 ára vinstri bakvörður sem sneri aftur til Fram frá FH í vor þegar Fram keypti hann til baka. Hann hefur komið við sögu í öllum deildarleikjum Fram frá komu sinni í vor, skorað tvö mörk og lagt upp tvö.
Útvarpsþátturinn - Umspilið, Rúnar Kristins og Besta
Athugasemdir
banner
banner