City og Real keppa um Musiala - Newcastle vill Calvert-Lewin - Gyökeres eftirsóttur af enskum félögum
   mán 23. september 2024 21:16
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Breiðablik aftur á toppinn - Gylfi bjargaði stigi fyrir Val
Gylfi Þór skoraði jöfnunarmark Vals
Gylfi Þór skoraði jöfnunarmark Vals
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Johannes Vall setti boltann í eigið net
Johannes Vall setti boltann í eigið net
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær gulltryggði sigur Blika
Ísak Snær gulltryggði sigur Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik endurheimti toppsæti Bestu deildar karla í kvöld með 2-0 sigri liðsins á ÍA á Kópavogsvelli. Gylfi Þór Sigurðsson bjargaði þá stigi fyrir Val í 2-2 jafnteflinu gegn Stjörnunni.

Íslandsmeistaratitillinn er barátta tveggja liða, Breiðabliks og Víkings, en hin liðin eru að berjast um síðasta lausa sætið í Evrópu.

Breiðablik skemmdi fyrir Skagamönnum með sigri liðsins í kvöld, en fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað. Blikar voru meira með boltann án þess að skapa sér mörg færi á meðan Skagamenn komu sér í álitlegar stöður en nýttu ekki.

Liðunum gekk illa að nýta sér góðar stöður fyrir framan teiginn, en það færðist aðeins meira fjör í leikinn í þeim síðari.

Hinrik Harðarson kom boltanum í netið á 50. mínútu en var dæmdur brotlegur þegar hann hoppaði upp með Antoni Ara Einarssyni, markverði Blika, og tók hann þannig úr jafnvægi.

Fimm mínútum síðar koma fyrsta mark leiksins en það var sjálfsmark Johannesar Vall. Davíð Ingvarsson kom með fyrirgjöfina frá vinstri í átt að Aroni Bjarnasyni, sem var þá í baráttu við Vall, en það vildi ekki betur en svo fyrir sænska leikmanninn að boltinn fór af bakinu á honum og í eigið net.

Blikar fengu nokkur góð færi eftir markið. Davíð Ingvars átti skot framhjá og síðan var hann sloppinn í gegn en náði ekki stjórn á boltanum og rann færið út í sandinn.

Heimamenn vildu vítaspyrnu þegar stundarfjórðungur var til leiksloka er keyrt var í bakið á Höskuldi Gunnlaugssyni sem féll í grasið. Ekkert dæmt og Blikarnir ósáttir með þá ákvörðun Sigurðar Hjartar Þrastarsonar, dómara leiksins.

Seint í uppbótartíma gulltryggði Ísak Snær Þorvaldsson sigurinn fyrir Blika. Skagamenn settu marga fram í leit að jöfnunarmarki en Blikar unnu boltann, komu honum fram á Ísak sem átti hörkuskot við enda vítateigsins í slá og inn.

Blikar fara aftur á toppinn með 52 stig en Skagamenn fara niður í 5. sætið, með 34 stig.

Gylfi kom Val til bjargar

Valur og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli á Hlíðarenda.

Stjörnumenn tóku forystuna í leiknum á 22. mínútu. Stjörnumenn höfðu verið í basli með að opna Valsara, en þeim tókst það svo sannarlega í þessari sókn.

Óli Valur Ómarsson kom með fyrirgjöfina frá hægri og á Hilmar Árna Halldórsson sem var við vítateigslínuna. Hann skaut föstu skoti út við stöng og staðan 1-0 fyrir gestina.

Adolf Daði Birgisson tvöfaldaði forystu Stjörnumanna á 38. mínútu. Hilmar Árni tók hornspyrnu beint á kollinn á Emil Atlason sem stangaði honum í átt að marki. Ögmundur Kristinsson varði skallann fyrir fætur Adolfs sem skoraði.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn eins og þann fyrri, með krafti. Albin Skoglund kom sér í gott færi eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar, en boltinn rétt framhjá.

Pressa Vals hélt áfram næstu mínútur og uppskáru þeir mark er Patrick Pedersen komst einn í gegn. Hann lagði boltann út á Skoglund sem skoraði af stuttu færi.

Heimamenn voru staðráðnir í að ná að minnsta kosti stigi úr leiknum og var það Gylfi sem sá til þess. Hann tók hornspyrnu sem féll aftur til hans, tók síðan á rás inn í teiginn og hamraði boltanum í netið.

Rétt fyrir markið fékk Kjartan Sturluson, einn af aðstoðarmönnum Srdjan Tufegdzic, að líta rauða spjaldið fyrir munnsöfnuð.

Síðustu mínútur leiksins hótuðu Stjörnumenn sigurmarki en það kom aldrei. Lokatölur 2-2. Valur er í 3. sæti með 39 stig en Stjarnan fer upp í 4. sæti með 35 stig.

Valur 2 - 2 Stjarnan
0-1 Hilmar Árni Halldórsson ('22 )
0-2 Adolf Daði Birgisson ('38 )
1-2 Albin Skoglund ('53 )
2-2 Gylfi Þór Sigurðsson ('76 )
Rautt spjald: Kjartan Sturluson, Valur ('74) Lestu um leikinn

Breiðablik 2 - 0 ÍA
1-0 Johannes Björn Vall ('55 , sjálfsmark)
2-0 Ísak Snær Þorvaldsson ('96 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla - Efri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 23 16 4 3 55 - 28 +27 52
2.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
3.    Valur 23 11 6 6 55 - 35 +20 39
4.    Stjarnan 23 10 5 8 42 - 37 +5 35
5.    ÍA 23 10 4 9 41 - 33 +8 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
Athugasemdir
banner
banner
banner