City og Real keppa um Musiala - Newcastle vill Calvert-Lewin - Gyökeres eftirsóttur af enskum félögum
   mán 23. september 2024 15:00
Elvar Geir Magnússon
Hefur skorað í öllum umferðum Fótbolti.net bikarsins - Skorar hann í úrslitaleiknum?
Stöð 2 Sport sýnir leikinn í beinni
Gonzalo Zamorano hefur skorað í öllum umferðum Fótbolti.net bikarsins í ár.
Gonzalo Zamorano hefur skorað í öllum umferðum Fótbolti.net bikarsins í ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KFA mætir á Laugardalsvöll.
KFA mætir á Laugardalsvöll.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Á föstudagskvöld klukkan 19:15 mætast Selfoss og KFA í úrslitaleik Fótbolti.net bikarsins, bikarkeppni neðri deilda, á Laugardalsvelli. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.

Víðir er handhafi bikarsins, en leikið var í fyrsta sinn um bikarinn á síðasta keppnistímabili.

Leið Selfoss í úrslitaleikinn
Selfoss vann 2. deildina í sumar og getur liðið fullkomnað tímabilið með því að vinna bikarinn á föstudagskvöld.

Selfoss vann 3-2 útisigur á Ægi í grannaslag í 32-liða úrslitum Fótbolti.net bikarsins þar sem Gonzalo Zamorano skoraði tvívegis af vítapunktinum eftir að Ægir komst tveimur mörkum yfir. Sesar Örn Harðarson skoraði sigurmarkið.

Í 16-liða úrslitum vann Selfoss 3-1 sigur gegn KFG með mörkum Nacho Gil, Gonzalo Zamorano og Alexander Clive Vokes.

Í 8-liða úrslitum vann Selfoss 3-2 gegn Haukum. Sesar Örn Harðarson skoraði tvívegis og Gonzalo Zamorano eitt.

Í undanúrslitum síðasta laugardag vann Selfoss svo 4-1 gegn Árbæ. Gonzalo Zamorano skoraði tvö mörk og hefur því skorað í öllum umferðum keppninnar í ár. Alexander Clive Vokes og Aron Fannar Birgisson skoruðu hin mörk Selfyssinga.

Leið KFA í úrslitaleikinn
Austfirðingar enduðu í fimmta sæti 2. deildar og náðu ekki því markmiði sínu að komast upp um deild.

Abdelhadi Khalok skoraði þrennu þegar KFA vann 6-3 sigur gegn ÍH í 32-liða úrslitum Fótbolti.net bikarsins. Julio Fernandes, Nenni Þór Guðmundsson og Arnór Pálmi Kristjánsson komust einnig á blað fyrir KFA.

KFA átti ekki í nokkrum vandræðum með Ými í 16-liða úrslitum og vann 6-0 stórsigur. Daníel Michal Grzegorzsson sem fæddur er 2009 kom af bekknum og skoraði. Jafnaldri hans Nenni Þór Guðmundsson lék svo sama leik þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu. Marteinn Már Sverrisson skoraði tvö í leiknum og þeir Julio Fernandes og Þór Sigurjónsson skoruðu sitt markið hvor.

Í 8-liða úrslitum vann KFA 3-1 útisigur gegn Augnabliki í Fífunni. Jacques Fokam Sandeu, Birkir Ingi Óskarsson og Eiður Orri Ragnarsson skoruðu mörkin.

Í undanúrslitum lenti KFA undir gegn Tindastóli en vann að lokum 2-1 sigur. Eiður Orri Ragnarsson og Marteinn Már Sverrisson með mörkin.
Athugasemdir
banner
banner