City og Real keppa um Musiala - Newcastle vill Calvert-Lewin - Gyökeres eftirsóttur af enskum félögum
banner
   mán 23. september 2024 19:14
Brynjar Ingi Erluson
Jafntefli í Íslendingaslag - Jói Berg og Cole Campbell skoruðu í gær
Jóhann Berg skoraði eina mark Al Orobah
Jóhann Berg skoraði eina mark Al Orobah
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cole Campbell skoraði fyrir varalið Dortmund
Cole Campbell skoraði fyrir varalið Dortmund
Mynd: Getty Images
Nokkrir Íslendingar voru á ferðinni í Evrópuboltanum í kvöld en það var sannkallaður Íslendingaslagur í sænsku deildinni.

Gautaborg og Halmstad skildu jöfn, 1-1, í Gautaborg. Kolbeinn Þórðarson var í liði Gautaborgar á meðan þeir Birnir Snær Ingason og Gísli Eyjólfsson byrjuðu hjá Halmstad.

Halmstad tók forystuna á 78. mínútu en báðir Íslendingarnir í liði Halmstad voru farnir af velli. Ramon Lundqvist jafnaði fyrir Gautaborg undir lok leiks og sá til þess að liðið færi ekki niður í fallsæti.

Gautaborg er áfram í 13. sæti með 23 stig en Halmstad í sætinu fyrir neðan með 22 stig.

Valgeir Valgeirsson lék allan leikinn fyrir Örebro sem gerði markalaust jafntefli við Oddevald í sænsku B-deildinni. Örebro er í 10. sæti með 28 stig.

Rúnar Alex Rúnarsson var þá áfram á bekknum hjá FCK sem vann 2-0 sigur á Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni. Nóel Atli Arnórsson var ekki með Álaborg. FCK er í 3. sæti með 17 stig en Álaborg í 9. sæti með 9 stig.

Daníel Freyr Kristjánsson, sem er á láni hjá Fredericia frá Midtjylland, lék allan leikinn í 3-0 sigri liðsins á Hillerod í dönsku B-deildinni. Fredericia er í öðru sæti með 19 stig eftir tíu umferðir.

Jóhann Berg og Cole Campbell á skotskónum

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eina mark Al Orobah í 4-1 tapi gegn Al Qadisiay í sádi-arabíska bikarnum í gær.

Mark Jóhanns kom úr vítaspyrnu seint í uppbótartíma.

Cole Campbell gerði þá þriðja markið í 3-0 sigri varaliðs Borussia Dortmund á Alemannia Achen í C-deildinni í Þýskalandi. Dortmund er í 9. sæti með 8 stig.

Þetta var fyrsta mark Cole með varaliðinu í deildinni á þessari leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner