Brasilíski varnarsinnaði miðjumaðurinn Andre er orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United í brasilíska miðlinum Trivela.
Man Utd hefur átt í viðræðum við Paris Saint-Germain um úrúgvæska leikmanninn Manuel Ugarte síðustu daga, en félögin eru ekki að ná saman um kaupverð.
United ætlar að fá Ugarte á láni út tímabilið og gera skiptin varanleg eftir tímabilið. PSG vill þó fá stóran hluta fyrir fram og hafa viðræður því kólnað síðustu daga.
Trivela segir að United sé farið að skoða aðra möguleika í stöðuna og er Andre, leikmaður Fluminense, sagður þar ofarlega á blaði og töluvert ódýrari kostur.
Andre er 23 ára gamall og varð Suður-Ameríkumeistari með Fluminense í lok síðasta árs. Hann hefur einnig verið orðaður við Fulham og Liverpool.
Fluminense hafnaði 21 milljón punda tilboði Fulham í leikmanninn fyrr í sumar en talið er að félagið ætli að koma með annað tilboð áður en glugginn lokar.
Athugasemdir