Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   sun 25. ágúst 2024 15:02
Ívan Guðjón Baldursson
England: Chelsea skoraði 6 gegn Wolves - Dramatík í Bournemouth
Mynd: EPA
Mynd: Newcastle United
Tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið í ensku úrvalsdeildinni þar sem áhugaverð úrslit litu dagsins ljós.

Wolves tók á móti Chelsea í gríðarlega fjörugri viðureign þar sem gestirnir komust tvisvar sinnum yfir í fyrri hálfleik en í bæði skiptin tókst Úlfunum að jafna svo staðan var 2-2 í leikhlé.

Nicolas Jackson kom Chelsea yfir með skalla eftir hornspyrnu en Matheus Cunha svaraði með góðu marki eftir frábæran undirbúning frá Rayan Ait-Nouri.

Cole Palmer tók forystuna á ný fyrir Chelsea með glæsilegu skoti utan vítateigs sem fór yfir markvörð Wolves sem var kominn langt út úr markinu, en Jörgen Strand Larsen jafnaði skömmu síðar eftir flotta stoðsendingu frá Toti.

Chelsea tók öll völd á vellinum í upphafi síðari hálfleiks þar sem Noni Madueke, sem áhorfendur bauluðu á allan leikinn eftir færslu hans á Instagram í gær, gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu á fyrstu 20 mínútunum.

Palmer lagði öll þrjú mörkin upp fyrir Madueke og svo kom Joao Felix inn af bekknum til að skora síðasta mark leiksins í svakalegum sigri, eftir stoðsendingu frá Pedro Neto sem var að spila gegn sínum fyrrum liðsfélögum. Lokatölur urðu 2-6 fyrir Chelsea og eru lærisveinar Enzo Maresca komnir með þrjú stig eftir tvær fyrstu umferðirnar á nýju tímabili.

Bournemouth tók þá á móti Newcastle og var sterkara liðið í fyrri hálfleik og tók Marcus Tavernier forystuna eftir stoðsendingu frá hinum afar líflega Antoine Semenyo.

Síðari hálfleikurinn var jafnari þar sem bæði lið fengu góð færi til að skora en Anthony Gordon tókst að gera jöfnunarmark á 76. mínútu eftir fyrirgjöf frá Harvey Barnes.

Það var mikil dramatík á lokamínútunum. Newcastle sótti en það voru heimamenn í Bournemouth sem komu boltanum í netið eftir hornspyrnu. Það mark var þó tekið af eftir athugun í VAR-herberginu og dæmd hendi á Dango Ouattara, en þessi dómur er afar umdeildur og er hægt að búast við að Andoni Iraola þjálfari Bournemouth verði ósáttur í viðtali að leikslokum.

Lokatölur urðu 1-1 í Bournemouth og eru heimamenn komnir með tvö stig eftir tvær fyrstu umferðirnar á nýju tímabili. Newcastle er með fjögur stig.

Liverpool tekur á móti Brentford í lokaleik dagsins.

Wolves 2 - 6 Chelsea
0-1 Nicolas Jackson ('2 )
1-1 Matheus Cunha ('27 )
2-1 Jorgen Strand Larsen ('45 )
2-2 Cole Palmer ('45 )
2-3 Noni Madueke ('49 )
2-4 Noni Madueke ('58 )
2-5 Noni Madueke ('63 )
2-6 Joao Felix ('80 )

Bournemouth 1 - 1 Newcastle
1-0 Marcus Tavernier ('37 )
1-1 Anthony Gordon ('76 )
Athugasemdir
banner
banner