Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   sun 25. ágúst 2024 19:48
Brynjar Ingi Erluson
Slot ánægður en hefði viljað drepa leikinn fyrr - „Höfum margt að sanna“
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arne Slot, stjóri Liverpool á Englandi, var ánægður með spilamennsku liðsins í 2-0 sigrinum á Brentford á Anfield í dag, en þetta var fyrsti keppnisleikur hans á heimavelli.

Liverpool vann Brentford nokkuð þægilega. Luis Díaz skoraði snemma leiks og gerði Mohamed Salah seinna markið í síðari hálfleiknum. Mörkin hefðu getað verið fleiri og var Liverpool-liðið með góða stjórn á leiknum.

„Byrjunin var góð. Það mikilvægasta var að fá ekki of mörg færi á okkur. Eina stóra færið sem við fengum á okkur var eftir fast leikatriði og það er alltaf erfitt að mæta því þegar þú spilar við Brentford. Þeir eru með ýmis vopn í vopnabúrinu og eitt þeirra eru föstu leikatriðin. Við náðum að halda því ágætlega í skefjum fyrir utan þetta eina augnablik.“

„Til þess að byrja svona vel þarftu að leggja mikið á þig. Strákarnir héldu áfram að leggja vinnuna á sig án bolta sem gerði okkur betri og betri í gegnum allan síðari hálfleikinn. Það skapaði mörg færi og það eina sem við gerðum ekki var að drepa leikinn fyrr,“
sagði Slot.

Trent Alexander-Arnold var allt í öllu. Hann koma sér í góðar fyrirgjafastöður. Slot gaf honum aðeins meira frelsi í leiknum, sem svínvirkaði.

„Trent er mörgum góðum kostum búinn og fyrirgjafirnar eru einn af þeim kostum. Ef við spilum honum bara á miðju þá getur hann bara sent boltann, sem hann gerir auðvitað ótrúlega vel, en við viljum líka koma honum í hættulegar fyrirgjafastöður.“

„Við reynum að hafa eins mikil áhrif á leikmenn og við getum áður en við förum inn í leiki. Segja þeim hvar svæðin munu opnast. Níu af tíu liðum í deildinni gera eitthvað öðruvísi gegn öðrum liðum og Trent hefur frelsið til þess að fara hvert sem er. Það er erfitt að spila gegn honum.“


Liverpool er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Slot ákvað þó að benda á það að Ipswich og Brentford eru ekki í sama gæðaflokki og önnur lið.

„Leikmennirnir komu til baka eftir þriggja vikna frí og flestir tveimur vikum fyrir byrjun tímabilsins, en þeir komu líkamlega sterkir til baka. Ég verð að hrósa leikmönnunum fyrir það hvernig þeir komu til baka. Við höfum ekki breyst mikið frá því ég tók við þannig það er ekki erfitt fyrir þá að byrja aftur að spila. Það var auðvitað mjög jákvætt.“

„Stuðningsmennirnir elskuðu að sjá liðið spila vel og leggja hart að sér á vellinum. Ég var hrifinn af því sem ég sá og ef mér leist vel á spilamennskuna þá eru stuðningsmenn sömu skoðunar. Þetta var mjög góður dagur hjá okkur.“

„Við unnum gegn Ipswich, unnum Brentford. Tvö góð lið en ég er ekki að búast við þeim meðal efstu sex liða á komandi tímabili þannig við höfum margt að sanna á næstu vikum og mánuðum,“
sagði Slot í lokin.
Athugasemdir
banner
banner